Krónan er ekki heppilegur gjaldmiðill fyrir Ísland til frambúðar. Þetta segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. Ummælin lét hann falla í samtali við Heimi Má Pétursson í þættinum Víglínunni á Stöð 2.
Nefndi hann sem dæmi að krónan lagaði sig ekki að þörfum sjávarútvegsins og jafnvel heldur ekki ferðaþjónustunnar, eins og sjá mætti í dag.
Þá væri íslenskt samfélag að missa til útlanda ýmis tæknistörf vegna gengis krónunnar.
Sagðist Benedikt helst vilja horfa til þess hvar Ísland ætti helst viðskipti, við skoðun á öðrum möguleikum. Engar töfralausnir væru þó í þessum efnum. Ef Ísland tæki upp evruna þyrftum við til dæmis að laga okkur að aðstæðum á vinnumarkaði á evrusvæðinu, sagði Benedikt.
„En þegar gengið er orðið svona rosalega sterkt þá fáum við fleiri í lið með okkur,“ bætti hann við og nefndi útgerðarfélög í því sambandi. Reynt yrði að ráða lausn á þeim vanda sem fælist í krónunni.