„Streitan enn þá feimnismál“

„Víða í kringum okkur er að koma í ljós að …
„Víða í kringum okkur er að koma í ljós að sjúkleg streita er algengasta skýringin á veikindafjarveru,“ segir Ólafur. mbl.is/AFP

„Streitan er enn þá svolítið feimnismál á Íslandi. Við Íslendingar eigum bara að setja öxlina í vindinn, öskra á hríðina og halda áfram,“ segir Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir og stofnandi Forvarna ehf., sem rekur Streitumóttökuna og Streituskólann.

Ólafur Þór er þjálfaður endurhæfingargeðlæknir og vann hann lengi á geðdeildum sjúkrahúsa í Svíþjóð og á Íslandi. Fljótlega vaknaði þó með Ólafi áhugi á forvörnum í tengslum við geðheilsu sem hann segir að megi nýta til að koma í veg fyrir ýmis geðræn vandamál.

„Það er í rauninni geðheilsueflingin, að gera eitthvað sem getur hindrað að fólk veikist,“ segir Ólafur en hann kvaddi spítalann og stofnaði Forvarnir fyrir um 15 árum.

„Það mætti enginn“

„Þá byrjaði ég á að auglýsa fund sem hét þunglyndi og kvíði og það mætti enginn. Á þeim árum var þetta enn þá meira stigmatíserað svo ég ákvað að matreiða þetta öðruvísi. Þá datt mér í hug orðið Streituskólinn, það var svolítið fyndið og ekki ógnvekjandi.“

Undir merkjum Streituskólans hóf Ólafur að auglýsa námskeið um sama viðfangsefni en nafnbreytingin hafði tilætluð áhrif.

Ólafur Þór sagði skilið við spítalann fyrir um 15 árum …
Ólafur Þór sagði skilið við spítalann fyrir um 15 árum og stofnaði þá Forvarnir. Mynd/Ólafur Þór Ævarsson

„Námskeiðin urðu strax vinsæl. Fyrirtæki hafa til dæmis mikið fengið Streituskólann inn til starfsmanna og þá hef ég samt verið að tala um kvíða, þunglyndi, samskipti og álag þannig að streitan er svona gluggi til að komast inn í djúpstæðari umræðu.“

Að sögn Ólafs hefur Streituskólinn komið við í um 200 fyrirtækjum og um 6.000 einstaklingar hafa sótt þar námskeið eða fengið ráðgjöf.

Frá því að Streituskólinn opnaði hefur þó margt breyst í bæði samfélaginu og vísindunum og í dag hafa margir áhuga á streitunni út frá vinnusálfræði og vinnuvernd. Markmið Forvarna er því orðið tvíþætt, annars vegar að veita meðferðir og ráðgjöf varðandi geðheilbrigði og geðsjúkdóma og hins vegar að veita ráðgjöf og stuðning í sálfélagslegri vinnuvernd.

Spurður um hvort Íslendingar séu almennt meðvitaðir um áhrif streitu og mikilvægi þess að taka á einkennum segir Ólafur að svo sé, en að enn megi gera betur.

„Við höfum ekki alveg opnað nógu mikið á umræðuna hérna. Víða í kringum okkur er að koma í ljós að sjúkleg streita er algengasta skýringin á veikindafjarveru en þetta er ekki eins opið hér. Fólk er ekki skráð veikt eða úr vinnu vegna sjúklegrar streitu.“

Þjónusta fyrirtæki jafnt sem einstaklinga

Streituskólinn hefur sem fyrr segir mikið komið inn í fyrirtæki til að fræða starfsfólk en Ólafur segir að í upphafi hafi ætlunin verið að geta líka boðið einstaklingum upp á þjónustu. Það hafi þó reynst erfitt að sinna hvoru tveggja enda hafi fyrirtækjaþjónustan tekið mikinn tíma. Því var ákveðið að opna aðra einingu innan fyrirtækisins og kallast sú Streitumóttakan.

Viktoría Birgisdóttir er í forsvari fyrir Streitumóttökuna en hún er einnig almennur ráðgjafi hjá Forvörnum. Viktoría er með BSc í sálfræði frá Háskóla Íslands en hún tók atvinnulífsfræði sem aukagrein og sérhæfði sig í sálfræðilegum áhættuþáttum með vinnu.

Viktoría hóf störf hjá Forvörnum í byrjun mars en hún …
Viktoría hóf störf hjá Forvörnum í byrjun mars en hún verður í forsvari fyrir Streitumóttökuna. Mynd/Forvarnir

Einn þessara áhættuþátta er streita en Viktoría segir að þjónusta Streitumóttökunnar muni bæði felast í að veita ráðgjöf í formi viðtala og að veita almenna fræðslu um streitu, afleiðingar hennar og aðferðir til að ná tökum á streitu.

„Viðbragð líkamans við álagi“

„Streita er í rauninni bara viðbragð líkamans við álagi, áföllum og utanaðkomandi kröfum,“ segir Viktoría spurð um hvað streita sé.

„Vinnutengd streita þýðir oftast að miklar kröfur séu gerðar og að einstaklingurinn upplifir sig ekki ráða við aðstæður í vinnunni. Í grunninn er streita lífeðlisfræðileg viðbrögð sem kallast fight and flight response sem virkjast ef við skynjum einhverja hættu. Viðbrögðin eru þá til dæmis að hjartað fer að slá hraðar og það myndast spenna í líkamanum. Þessi viðbrögð hjálpa manni annaðhvort að takast á við óttann eða hættuna eða flýja hana. Það sem gerist þegar streita myndast er í rauninni að við förum stöðugt að virkja þessi viðbrögð. Þetta er jafnvel eitthvað huglægt, okkur finnst að það séu gerðar of miklar kröfur á vinnustaðnum eða að við fáum allt of lítinn tíma til að sinna verkefnum. Þá erum við stöðugt að virkja þessi líkamlegu viðbrögð en ekki að vinna með þau.“

Viktoría segir viðbrögð fólks við álagi afar ólík.
Viktoría segir viðbrögð fólks við álagi afar ólík. Mynd/Viktoría Birgisdóttir

Að sögn Viktoríu getur viðvarandi spenna í líkamanum haft mjög neikvæð áhrif á heilsu einstaklingsins enda er hugurinn þá sífellt að skynja einhverja ógnun. Vari ástandið í sex mánuði eða lengur getur það jafnvel þróast út í sjúklega streitu. Viktoría segir viðbrögð fólks við álagi þó afar ólík.

„Þar koma forvarnirnar inn. Þetta er auðvitað alltaf að einhverju leyti á ábyrgð vinnustaðarins að skapa heilsusamlegt vinnuumhverfi en það sem okkur langar að gera er að vinna með einstaklingum svo þeir læri að þekkja á sjálfa sig, þekki streituviðbrögð  sín og átti sig á því hverjir streituvaldarnir eru. Um leið og þú þekkir betur inn á sjálfa þig þá ertu betur í stakk búin til að takast á við álagstíma í þínu lífi.

Núvitund og hugræn atferlismeðferð

Í sinni vinnu notast Viktoría aðallega við núvitund og hugrænar atferlismeðferðir en rannsóknir hafa sýnt fram á að hvort tveggja eru árangursríkar aðferðir til að vinna úr streitu.

„Núvitund er í raun ástand hugans, þar sem einstaklingur er opinn fyrir líðandi stundu og gerir sér meðvitað grein fyrir því sem er að gerast í umhverfinu. […] Hugurinn er svo magnað fyrirbæri, hann er úti um allt, við erum sífellt að hugsa. Núvitund hjálpar okkur að hægja aðeins á og átta okkur á hvað er að gerast akkúrat núna. Með þessum æfingum getur maður áttað sig á því hvað er að valda okkur spennu.“

Á námskeiðunum nýtir Viktoría svo hugræna atferlismeðferð til að kenna fólki að breyta hugsanatengslum sínum.

„Við vinnum með að reyna að átta okkur á hverjar tilfinningar okkar eru, af því að líðan þín tengist bæði því hvernig þú hugsar og hvað þú gerir. Oftast upplifir fólk neikvæðar hugsanir þegar það er undir miklu álagi og í rauninni förum við þá að vinna með þessar hugsanir, finna mótrök við þeim þannig að við skiptum þeim út fyrir eitthvað jákvæðara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert