Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Austurlandi voru kallaðar út laust fyrir klukkan 14 að Fjarðarhöllinni á Reyðarfirði. Mikill snjór hafði runnið af þaki hallarinnar og talið var hugsanlegt að börn sem þar voru að leik hefðu orðið undir snjónum.
Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að lögreglan hafi veitt björgunarsveitum leyfi til forgangsaksturs og þær verið fljótar á staðinn þar sem þær voru við snjóflóðaleitaræfingar í Oddsskarði með snjóflóðaleitahunda, leitarstangir og skóflur.
Vel gekk að leita í snjónum umhverfis húsið og klukkustund eftir að útkallið barst var björgunarsveitarfólk búið að fínkemba svæðið og leita af sér allan grun.