„Tímamótum náð í uppgjöri við bankahrunið“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir það ánægjulegar fréttir að erlendir aðilar skuli koma með fjármagn til landsins og fjárfesta í íslenskum banka.

„Það eru mjög mikil tímamót að erlendir aðilar vilji eignast hlut í íslenskum banka og þetta er án efa einhver stærsta fjárfesting erlendis frá í íslensku fjármálakerfi fyrr og síðar.“

Hann segir að með kaupum fyrirtækjanna fjögurra sé ákveðnum tímamótum náð í uppgjöri við bankahrunið 2008.

„Þetta sýnir ótvírætt traust á aðstæðum hérlendis og það eru sannarlega góðar fréttir ef hingað vilja koma öflugir erlendir aðilar sem eru tilbúnir að gerast langtímafjárfestar í íslenskum fjármálafyrirtækjum. Auðvitað á eftir að koma í ljós hvað þessir tilteknu aðilar eru að hugsa og hversu lengi þeir hafa hugsað sér að fjárfesta hér en viðskiptin sem slík eru mikið styrkleikamerki fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir Bjarni.

Hann segir að það sé ekki sérstakt kappsmál að erlendir fjárfestar komi hingað til lands og kaupi upp heilu fjármálafyrirtækin en það sé hins vegar mikilvægt að stuðla að dreifðu eignarhaldi margra traustra langtímafjárfesta.

Þá segir Bjarni að tíðindin gefi fyrirheit um að íslenska ríkið muni endurheimta að fullu kostnað sinn við endurreisn bankans á sínum tíma og að þau gefi einnig tilefni til að ætla að hægt verði að skrá bankann á markað.

„Það mun enn leiða til dreifðara eignarhalds á bankanum og þá er ég einnig vongóður um að ríkissjóður muni á réttum tímapunkti geta losað um 13% eignarhlut sinn í bankanum.“

Spurður út í hvort aðkoma erlendra aðila að Arion banka feli í sér traustsyfirlýsingu gagnvart íslensku krónunni segist Bjarni ekki geta fullyrt nokkuð um það.

„Það er hins vegar ljóst að íslenska krónan hefur ekki reynst fyrirstaða í þessum viðskiptum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert