Veðja nú með Íslandi en ekki á móti

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/RAX

„Sjóðirnir eru að veðja með bankanum [Arion banka] og Íslandi. Það er öfugt veðmál en fyrir hrun þegar veðjað var gegn Íslandi. Það er hægt að horfa á það jákvætt.“ Þetta segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra um fréttir þess efnis að þrír vogunarsjóðir og bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs hafi keypt tæplega 30% hlut í Arion banka af dótturfélagi Kaupþings ehf. Tilkynnt var um kaupin fyrr í kvöld.

Benedikt segir í samtali við mbl.is að það sé viss viðurkenning að erlendir fjárfestar vilji eiga í innlendum banka og það sé breyting frá því fyrir hrun. Segist hann ekki telja að neinn alvöru fjárfestir hafi verið að íslensku viðskiptabönkunum fyrir hrun. Nefnir hann Sheikh Al Thani sem keypti 5% hlut í Kaupþingi rétt fyrir hrun og að hann hafi „reynst vera vafasamur kaupandi“.

Best að hafa langtímafjárfesta

Benedikt bendir á að þessi sala komi í kjölfar samnings sem fyrri ríkisstjórn gerði vegna stöðugleikaframlags frá slitabúum föllnu bankanna. Hann segist ekki vita hvort sjóðirnir líti á þetta sem langtímafjárfestingu en að hann taki undir með Fjármálaeftirlitinu um að telja best að að bönkum séu langtímafjárfestar.

Spurður hvort hann telji vogunarsjóði þá réttu hlutahafana segir Benedikt að skiljanlega sé fólk skeptískt á vogunarsjóði en það jákvæða sé að þeir séu svo sannarlega með þessu að veðja með Íslandi, en ekki á móti því eins og fyrir hrun.

Fer allt til niðurgreiðslu skulda ríkisins

Kaupverðið á þessum tæplega 30% hlut er um 48,8 milljarðar og verða þeir notaðir til að greiða inn á 84 millj­arða króna skulda­bréf rík­is­sjóðs sem var hluti af stöðug­leikafram­lagi Kaupþings sem samþykkt var við nauðasamn­inga fé­lags­ins. Benedikt segir að þessi upphæð muni öll fara til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs, enda hafi verið ákveðið að öll framlögin vegna stöðugleikaframlaganna færu í það.

Benedikt segir að þótt það sé mjög jákvætt að geta greitt niður skuldir þurfi að hafa í huga að skuldabréfið hafi borið 5% vexti sem hafi skilað sér í vaxtatekjum fyrir ríkissjóð.

Arion banki.
Arion banki.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert