Kaup vogunarsjóða á Arion banka var það sem brann á þingmönnum í óundirbúnum fyrirspurnum Alþingis í dag og beindu þeir spurningum sínum til Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, óskaði eftir að fengnar yrðu upplýsingar um hverjir stæðu raunverulega að kaupum á hlut í bankanum. Hún sagði það enga tilviljun að einstakir fjárfestar fari með 9,99% eignarhlut sem myndar samtals 30% hlut í Arion banka. Hins vegar ef hluturinn hefði verið 10% þyrfti fjármálaeftirlitið að fá upplýsingar um eigendur.
Í ljósi þess að vogunarsjóðir hafi ráðist sameignlega í þessi kaup spurði hún hvort fjármálaeftirliti væri ekki heimilt að kanna eignarhaldið.
Benedikt fjármálaráðherra tók fram að það væri ekki hlutverk fjármálaráðuneytisins að upplýsa um eignarhaldið heldur væri það á herðum fjármálaeftirlitsins að fylgja þeim reglum sem giltu um hæfi kaupenda.
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi einnig söluna á hlutum í Arion banka. Hann spurði í hvaða samskiptum ríkisstjórnin hefði verið við vogunarsjóði í undirbúningi við afnám hafta sem var gert nokkrum dögum áður en þeir keyptu hlut í Arion banka.
Það kaupir enginn banka án þess að vera í samskiptum við stjórnvöld, fullyrti Sigurður Ingi. Hann spurði jafnframt hvort ráðherra teldi kaupin falla undir gagnsæ vinnubrögð og hvort þau féllu að eigendastefnu stjórnvalda.
Benedikt svaraði því til að hann hefði ekki átt í neinum samskiptum við kaupendur bankanna. Hann minnti á að slitabú Kaupþings hefði selt hlutina í bankanum samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi og þáverandi ríkisstjórn hefði sett og honum vitanlega hefði Sigurði Inga verið fullkunnugt um þær.
Sigurður Ingi ítrekaði þá beiðni að upplýst yrði betur um eignarhald og aðdraganda kaupa á bankanum og spurði hvort þetta væri til þess fallið að auka trú almennings á bankakerfinu.