„Margt vekur spurningar í þessum efnum og margt sem maður myndi vilja vita,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í samtali við mbl.is vegna sölu á 30% hlut Kaupþings í Arion banka. Meðal kaupenda eru sjóðirnir Taconic Capital, Attestor Capital, Och-Ziff Capital Management Group og Goldman Sachs-fjárfestingabankinn. Hún segir að óskað hafi verið eftir fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis vegna málsins.
Meðal annars vakni spurningar um það hvers kyns eigendur um sé að ræða og hvort þeir séu líklegir til þess að byggja upp langtímabankastarfsemi hér á landi í ljósi eðlis starfsemi þeirra. Katrín bendir enn fremur á að tveir af nýju eigendunum séu að kaupa 9,99% hlut í Arion banka sem sé rétt rétt undir viðmiði Fjármálaeftirlitsins um virkan eignarhlut sem er 10%. Virkur eignarhlutur kalli á ríkari kröfu um að eftirlitið skoði viðkomandi kaupendur.
„Ég myndi líka vilja vita hverjir eru á bak við þessa sjóði. Hverjir eru hinir endanlegu eigendur? Þarna er auðvitað á ferðinni alveg gríðarlega mikilvæg starfsemi fyrir Ísland sem þarna fer fram. Þarna er komið eignarhald sem við vitum í rauninni ekkert hverjir eru á bak við,“ segir Katrín. Hún bendir á að kaupverðið sé um 0,8% af hverri krónu af eigin fé bankans en ríkissjóður hefði átt forkaupsrétt ef verðið hefði verið undir því kaupverði.
„Miðað við það eru þeir að kaupa á lægsta mögulegu verði án þess að ríkið geti gripið inn í miðað við samkomulagið um stöðugleikaframlög. Þannig að þetta virðist allt vera hannað með það fyrir augum að komast fram hjá öllum mögulegum afskiptum ríkisins af þessum viðskiptum og það í sjálfu sér vekur spurningar,“ segir Katrín enn fremur. Hún hafi verulegar efasemdir um að þarna séu á ferðinni óskaeigendur fyrir þessa starfsemi.
„Mér finnst eðlilegt að íslenskur almenningur viti hverjir séu raunverulegir kaupendur. Ekki síst í ljósi forsögunnar og hvernig málin þróuðust fyrir bankahrunið. Ég tel einfaldlega að við þurfum að vera á varðbergi í þessum málum. Þó að það geti verið jákvætt að einhverju leyti að fá inn erlenda aðila í einhverja starfsemi þá skiptir máli að við gerum sömu kröfur til þeirra og annarra meðal annars varðandi eignarhald. Þannig að ég geld varhug við þessu.“