Sjálfstæðið lykillinn að árangri Íslands

Frá Dublin, höfuðborg Írlands.
Frá Dublin, höfuðborg Írlands. Wikipedia/Robzle

„Við þvöðrum um sjálfstæði en undir niðri viljum við frekar sökkva okkur í faðm stórrar alþjóðastofnunar sama hversu flekkóttur ferill hennar kann að vera. Frelsunin sem við í raun þráum er frelsið til þess að þurfa ekki að hugsa sjálfstætt.“

Þannig lýkur grein írska fræðimannsins Cormacs Lucey í breska dagblaðinu Sunday Times sem birtist á sunnudaginn þar sem hann fjallar um þróun efnahagsmála á Íslandi og samanburðinn við heimaland hans Írland. Lucey, sem er lektor í fjármálum við Trinity College og University College Dublin, telur að þar hafi sjálfstæði Íslands skipt sköpum.

Hagvöxtur væri góður á Íslandi og með því mesta sem gerðist í Evrópu, ferðaþjónustan blómstraði, einkaneysla færi vaxandi sem væri birtingarmynd minnkandi atvinnuleysis og vaxandi kaupmáttar. Fjármagnshöftin hafi að mestu verið afnumin í síðustu viku sem viðbúið væri að leiddi til frekari erlendrar fjárfestingar á Íslandi.

Írland nær gjaldþrota við að bjarga bönkum

Lucey hefur greinina á því að rifja upp að þegar alþjóðlega fjármálakrísan hafi staðið sem hæst hafi Michael Noonan, fjármálaráðherra Írlands, lagt áherslu á það að Írland væri ekki Ísland. Með þeim orðum hafi hann viljað taka af allan vafa um að Írar myndu ekki að fara sömu leið og Íslendingar þegar kæmi að því að takast á við krísuna.

Michael Noonan, fjármálaráðherra Írlands.
Michael Noonan, fjármálaráðherra Írlands. AFP

Íslendingar hafi ekki bjargað íslenskum bönkum frá gjaldþroti á meðan Írland hafi nærri því orðið gjaldþrota við að bjarga þarlendum bönkum. Írar hafi varið 65 milljörðum evra (rúmlega 7.700 milljörðum króna) af skattfé til þess að koma í veg fyrir að bankar færu í þrot. Stór hluti þess fjármagns hafi endað í vösum kröfuhafa bankanna.

Lucey segir að þetta hafi írsk stjórnvöld ákveðið að gera í kjölfar þess að þáverandi forseti bankastjórnar Evrópska seðlabankans, Jean-Claude Trichet, hafi hringt í Noonan og varað hann við því að ef erlendir kröfuhafar fengju ekki sitt myndi „sprengja springa“ og að það yrði ekki á vettvangi Evrópusambandsins heldur á Írlandi.

Fylgdu skipunum frá Evrópska seðlabankanum

„Höldum því til haga að engin sprengja sprakk í Reykjavík þegar stjórnvöld þar létu erlenda kröfuhafa taka skellinn. Það sem meira er þá er Írland ekki Ísland þar sem Ísland hélt í peningalegt fullveldi sitt. Gengislækkun um helming gerði landið alþjóðlega samkeppnishæft. Írland lagði sitt peningalega fullveldi inn í evrusvæðið.“

Gengi evrunnar hafi hækkað gagnvart helstu viðskiptamyntum Írlands í kjölfar efnahagskrísunnar, einkum breska pundinu. Það hafi aukið á verðbólgu og aukið enn á efnahagserfiðleika Íra. Þrátt fyrir fámenni hafi Íslendingar undirstrikað sjálfstæði sitt með því að halda í eigin gjaldmiðil og staðið vörð um hagsmuni sína.

Jean-Claude Trichet, fyrrverandi forseti bankastjórnar Evrópska seðlabankans.
Jean-Claude Trichet, fyrrverandi forseti bankastjórnar Evrópska seðlabankans. AFP

Til samanburðar hafi Írar fórnað sjálfstæði sínu með þátttöku í gjaldmiðli sem snerist um evrópska meginlandshagsmuni og auðmjúkir fylgt fyrirskipunum frá Evrópska seðlabankanum. Lucey telur tvennt hafa þarna haft mikil áhrif. Fyrir það fyrsta sú staðreynd að Írland hafi lengi lotið breskum yfirráðum áður en það varð sjálfstætt.

Mótaðir af samskiptum við Breta og kaþólskri trú

Lucey segir samskiptasögu Íra við Bretland hafa allar götur síðan haft gríðarleg áhrif á pólitískan hugsunarhátt á Írlandi. Þegar Bretar hafi ráðið Írlandi hafi stjórnmálin snúist um að draga úr áhrifum þeirra og eftir að sjálfstæðið hafi verið í höfn að sjá til þess að landið væri sem minnst háð Bretlandi í efnahagslegu tilliti.

„Þessi árátta hefur leitt okkur dýpra og dýpra í fang Evrópusambandsins, jafnvel svo djúpt að bjarga kröfuhöfum banka,“ segir hann. Hin skýringin sé að mestu leyti kaþólskt hugarfar Íra. Mótmælendur litu fremur á Biblíuna en eina ákveðna kirkju sem æðsta trúarlega valdið sem hefði leitt af sér einstaklingsmiðri stjórnmálamenningu.

„Kaþólikkar leggja á hinn bóginn áherslu á eina stóra kirkju,“ segir Lucey. Þetta hafi áhrif á stjórnmálamenninguna þar sem fremur sé lögð áhersla á stórar stofnanir sem bjóði upp á heildarlausnir, eins og til að mynda Evrópusambandið, en að nálgast málin með sjálfstæðum hætti líkt og Íslendingar hafi gert.

Evrópski seðlabankinn.
Evrópski seðlabankinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka