Myndband sem sýnir langa röð bílaleigubíla, sem lögðu út í vegkant beggja vegna vegarins milli Laugarvatns og Geysis í gær til að skoða hross í haga, hefur vakið mikið umtal á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar.
Leiðsögumaðurinn Pétur Gauti Valgeirsson sem deildi myndbandinu segir þetta vera vel þekkt vandamál á þessum slóðum, þó að óvenjumargir bílar hafi verið stopp þarna í gær.
„Þetta eru allt ferðamenn á bílaleigubílum sem hafa stoppað þarna í vegkantinum og eru svo hlaupandi fram og til baka,“ segir hann og bætir við að þessu fylgi mikil hætta. „Það er mikil umferð á þessum vegi af alls konar stórum bílum og þetta er sérstaklega hættulegt þegar það er hálka á veginum.“ Engin aðstaða sé fyrir bíla að stoppa þarna með góðu móti.
Mbl.is ræddi í síðasta mánuði við Margeir Ingólfsson, hrossabónda í Bláskógarbyggð, sem kom upp bílaplani og gerði með nokkrum hestum á landi sínu fyrir ferðamenn, til að draga úr ágangi í önnur hross sín og til að forðast slys á vegakaflanum við land sitt. Pétur Gauti kannast vel við framlag Margeirs. „Hann var búinn að glíma við vandamál og mér skilst að þetta gangi ágætlega,“ segir hann.
Pétur Gauti segir að sjálfur hafi hann orðið varann á ef hann sér bílaleigubíl á undan sér. „Maður veit aldrei nema hann muni snögghemla. Ég er sérstaklega með varann á mér ef ég veit af einhverju áhugaverðu eins og hestum fram undan, en stundum negla þeir líka niður skyndilega án þess að maður hafi hugmynd um hvers vegna.“