Lítil sem engin hækkun hefur orðið á hlutfalli kvenna í stöðu sveitarstjóra hér á landi síðustu tólf árin. Rétt rúmur fimmtungur sveitarstjóra eru konur, eða 16 á móti 58 körlum. Hlutfallið hefur hækkað um rúm 10 prósentustig frá aldamótum.
Í dag eru sveitarfélög landsins 74 talsins og er 16 þeirra stjórnað af konum eins og fyrr segir. Það eru Seltjarnarnes, Kjósarhreppur, Sandgerðisbær, Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Árneshreppur, Strandabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður, Húnaþing vestra, Þingeyjarsveit, Fljótsdalshreppur, Sveitarfélagið Árborg, Skaftárhreppur, Hveragerðisbær, Grímsnes- og Grafningshreppur og Flóahreppur. Öðrum sveitarfélögum er stjórnað af körlum.
Þegar tólf ára gamlar tölur eru skoðaðar, frá árinu 2005, má sjá 21 konu í stöðu sveitarstjóra en þá voru sveitarfélög landsins 101 talsins. Hlutfallið var þá 20,8% miðað við 21,6% í dag. En þegar tölurnar eru skoðaðar frá því í desember árið 2000 má sjá töluvert lægra hlutfall eða 11,3%. Þá voru sveitarfélögin 124 talsins og var 110 þeirra stjórnað af körlum en aðeins 14 af konum.
Þær konur sem stjórna stærstu sveitarfélögunum eru Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Árborgar, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness, Ásta Björg Pálmadóttir, sveitarstjóri Skagafjarðar og Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.
Ef hlutföll kvenna í sveitarstjórnum árin 1990 til 2014 eru skoðuð má sjá töluverða hlutfallslega hækkun. Árið 1990 voru sveitarstjórnarmenn alls 1.116 talsins og konur 21,8% eða 243 talsins. Þá var fjöldi sveitarfélaga þar sem engin kona var í sveitarstjórn 58. Árið 2006 hafði hlutfallið breyst töluvert en þá voru sveitarstjórnarmennirnir 529 talsins og 35,7% þeirra voru konur. Fjöldi sveitarfélaga þar sem engin kona var í sveitarstjórn var 5 en sveitarfélögin voru 79.
Þegar litið er til tímarammans í heild má sjá að á árunum 1990 til 2014 hafði sveitarstjórnarmönnum fækkað um rúman helming eða úr 1.116 í 504. Á sama tíma hækkaði hlutfall kvenna um rúm 22% og stóð í 44% árið 2014. Þá var aðeins eitt sveitarfélag þar sem engar konur voru í sveitarstjórn. Árið 2014 sátu fleiri karlar en konur í 18 sveitarstjórnum.