„Tilkynning barst okkur um að karlmaður hefði sést þarna með skammbyssu,“ segir Heimir Ríkharðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is vegna skothvells sem heyrðist í Fossvogsdalnum skammt frá Birkigrund í Kópavogi í gærkvöldi en tilkynningin um það barst um klukkan 20:18.
Frétt mbl.is: Tilkynnt um skothvell í Kópavogi
Heimir segir að vopnað lögreglulið hafi verið sent á staðinn. Enginn var á staðnum þegar þangað kom og fór þá fram leit á svæðinu sem skilaði ekki árangri. Við leitina fannst skothylki á vettvangi en það fannst að sögn Heimis í læknum í Fossvogsdalnum. Talið er að skotið hafi verið upp í loftið.
Spurður hvers konar skothylki hafi verið að ræða segir Heimir málið einfaldlega vera í rannsókn. Þeir sem kunni að hafa upplýsingar um málið séu hvattir til þess að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000.