Ókleift að keppa við erlendar efnisveitur

Um 44% íslenskra heimila eru með áskrift að Netflix.
Um 44% íslenskra heimila eru með áskrift að Netflix. Skjáskot af íslensku útgáfu Netflix

„Mikil aukning er á notkun erlendra efnisveitna hér á landi. Hið opinbera mismunar íslenskum sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði og gerir þeim ókleift að keppa á jafnréttisgrundvelli við erlendar efnisveitur og aðra afþreyingu.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá FRÍSK, Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði.

44% heimila landsins eru með áskrift af Netflix og 3–4% heimila eru einnig með áskrift að öðrum sambærilegum erlendum veitum á borð við Google Play og Amazon Prime Video. Þetta kemur fram í nýlegri könnun sem Gallup gerði fyrir félagið. Til samanburðar nýttu um 22% heimila þessa þjónustu tveimur árum fyrr.      

Greiða engin opinber gjöld hér á landi

„Erlendar efnisveitur á borð við Google Play og Netflix, sem hafa opnað fyrir þjónustu sína á Íslandi, sem og rafrænar tónlistarveitur á borð við Spotify og Google Music, greiða engan virðisaukaskatt eða önnur opinber gjöld hér á landi.  Íslenski sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðurinn greiðir samanlagt um 12 milljarða króna árlega til hins opinbera og skapar að lágmarki 1.300 ársverk í landinu (2.000 óbein ársverk). Erlendar efnisveitur borga ekkert og skapa engin ársverk,“ segir jafnframt í tilkynningunni. 

FRÍSK vill að sitjandi þingmenn á Alþingi „taki umsvifalaust skref í þá átt að jafna samkeppnisumhverfi íslenskra efnisveitna gagnvart þeim erlendu og dragi úr álögum á íslenska sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert