Vegagerðin vinnur að rannsóknarverkefni þar sem skoðað er hvar ferðamenn stöðva bíla sína oftast úti í kanti. Hætta getur skapast þegar bifreiðar eru skyndilega stöðvaðar úti í kanti á þjóðvegum landsins, þar sem engin aðstaða er til slíks.
Myndband sem sýnir langa röð bílaleigubíla, sem lögðu út í vegkant beggja vegna vegarins milli Laugarvatns og Geysis í fyrradag til að skoða hross í haga, hefur vakið mikið umtal á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar.
Engin aðstaða er fyrir bíla til að stöðva þar en það gæti breyst. „Við erum að skoða staði með möguleg útskot í huga,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is.
„Það er til skoðunar hvar þessir staðir eru og við erum að reyna að kortleggja það á einhvern hátt,“ segir Pétur en hann veit ekki nákvæmlega hvenær þeirri vinnu lýkur.
Hann bendir á að það þurfi ýmislegt að smella saman ef útskotum á að fjölga. „Það þarf fjármagn og annað ef á að fjölga útskotum og það eru ýmis sjónarmið í því. Vandamálið er líka að þar er innákeyrsla inn á veg sem einnig er hættuleg.“