Núverandi og fyrrverandi kvenkyns bæjarstjórar sem mbl.is ræddi við í dag eru sammála um að hlutfall kvenna í stöðum sveitar- og bæjarstjóra eigi að vera miklu hærra og hvetja þær konur til að gefa kost á sér. Í dag er aðeins 16 sveitarfélögum af 74 stjórnað af konum.
Fyrrverandi bæjarstjóri Akraness, Regína Ásvaldsdóttir, segir hlutfall kvenna í sveitar- og bæjarstjórastöðum of lágt. Hún segir að gott væri ef hlutfallið væri sem jafnast.
„Ég tók sérstaklega eftir þessu eftir kosningarnar 2014. Við hittumst reglulega bæjarstjórarnir og þá sá ég að konum í hópnum hafði fækkað verulega,“ segir Regína í samtali við mbl.is en hún hætti sem bæjarstjóri Akraness fyrr í mánuðinum og stýrir nú velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
Regína telur að Samband íslenskra sveitarfélaga ætti að vakta kynjahlutfall sveitar- og bæjarstjóra og jafnvel standa fyrir einhverskonar átaki fyrir næstu kosningar. „Þetta náttúrulega gerist í kosningunum. Bæjar- og sveitarstjórar eru ýmist pólitískt kjörnir eða ráðnir og því er mjög mikilvægt að taka þetta inn í umræðuna.“
Hún bendir á að konum hafi fjölgað mjög í sveitarstjórnum, rétt eins og í stjórnum fyrirtækja. „En það virðist vera eitthvað glerþak sem gerir það að verkum að konur fara síður í forstjórastörfin og það sama má segja um bæjar- og sveitarstjórastöður sem eru yfirleitt eftirsóttustu stöðurnar í tengslum við sveitarstjórnirnar,“ segir Regína.
Af tíu stærstu sveitarfélögum landsins er aðeins einu þeirra stjórnað af konu þrátt fyrir að stærsti hluti starfsmanna sveitarfélaganna séu kvenkyns.
Regína var bæjarstjóri á Akranesi í rúm 4 ár en er nú eins og fyrr segir yfir velferðarsviði Reykjavíkurborgar þar sem 2.500 manns starfa. „Hér erum við að fást við þveröfugar aðstæður. Við erum að reyna að laða karla að störfunum hér, bæði almennu störfin og í stjórnunarstöður,“ segir Regína.
Aðspurð hvað hún telji ásættanlegt hlutfall kvenna í stöðum sveitar- og bæjarstjóra segir Regína að það ætti að vera sem jafnast. Regína segist útfrá sinni reynslu bæjarstjórastarfið henta konum algjörlega jafn vel og körlum. „Þetta er mjög skemmtilegt starf þar sem verið er að fást við fjölbreytta málaflokka og ég vil hvetja konur til að sækjast eftir þessum störfum.“
Ásgerður Halldórsdóttir hefur verið bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar í tæp átta ár. Hún segir hlutfall kvenna í stöðum sveitar- og bæjarstjóra engan veginn nógu hátt. „Maður hefur ekki verið að sjá margar nýjar konur,“ segir Ásgerður í samtali við mbl.is og bætir við að að hennar mati ætti helmingur sveita- og bæjarstjóra að vera kvenkyns.
Ásgerður segir tölfræðina sýna að það þurfi fleiri konur í sveitarstjórnir, ekki aðeins í stöður sveitar- og bæjarstjóra. Ítrekar hún mikilvægi þess að konur gefi kost á sér og taki virkan þátt. „Þær sem starfa innan sveitarstjórnar, hvort sem það er í nefndum eða sérverkefnum ættu endilega að skoða hvort þær hafi ekki áhuga á að fara í sveitarstjórnir og jafnvel gefa kost á sér í oddvita.“
Hún bendir á að nú séu fleiri konur háskólamenntaðar en karlar og eru þær til dæmis að mennta sig í opinberri stjórnsýslu og félagsmálum. „Að stýra sveitarfélagi er fjölbreytt starf og snýr að stórum hluta að skólamálum og velferðarsviðinu. En það eru einhvern veginn þær sem eru að mennta sig í þessu en gefa síður kost á sér.“
Af 74 sveitar- og bæjarstjórum hér á landi eru aðeins 16 konur og er Ásgerður eini kvenkyns bæjarstjórinn á höfuðborgarsvæðinu. „Við hittumst stundum á fundum og þá er ég eina konan. Það er ekki í lagi. Nú eru þeir allir góðir leiðtogar fyrir sín sveitarfélög en umræðan þarf að vera meiri.“