Óvenjulegar kröfur hjá sýslumanni

Auglýsingin umtalaða.
Auglýsingin umtalaða. Skjáskot/Bændablaðið

„Reynsla af frjósemisleiðbeiningum til bænda“ er ein af þeim kröfum sem gerðar eru til stefnuvotta hjá sýslumannsembættinu á Suðurlandi í atvinnuauglýsingu sem birtist í Bændablaðinu sem kom út í morgun. Verður það að teljast nokkuð óvenjuleg krafa, enda hefur jafnan aðeins verið gerð krafa um aldur, óflekkað mannorð og að vera heilsuhraustur. 

Þegar mbl.is hringdi í sýslumannsembættið til að forvitnast um þessa nýju óvenjulegu kröfu voru viðbrögðin mikill hlátur enda varð það mjög fljótt ljóst að um mannleg mistök var að ræða og að bútur úr annarri auglýsingu hafði slæðst með í þessa frá sýslumanni.

Kristján Óðinn Unnarsson, fulltrúi sýslumanns, segir að eitthvað hafi farið úrskeiðis við vinnslu auglýsingarinnar, en að mistökin hafi reyndar vakið mikla kátínu meðal starfsmanna embættisins. Segir hann á jákvæðu nótunum að vegna þessarar sérstæðu villu fái auglýsingin væntanlega meiri athygli sem sé jákvætt fyrir alla.

Hann tekur fram að leiðrétt auglýsing verði birt í næsta tölublaði Bændablaðsins.

Það var Magnús Hlynur Hreiðarsson fréttamaður sem benti fyrst á sérstöðu auglýsingarinnar á Facebook.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert