1200 milljónir til viðbótar til vegamála

Í Berufirði.
Í Berufirði. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að veita 1200 milljónum til viðbótar til vegamála. Meðal verkefna sem ráðist verður í á grundvelli þessara fjármuna verða verkefni í Berufjarðarbotni, Dettifossvegur, Kjósarskarðsvegur, Uxahryggjavegur, Skógarstrandaleið, og verkefni við Teigsskóg og Hornafjarðarfljót. 

Jón Gunnarsson samgönguráðherra tilkynnti þetta eftir ríkisstjórnarfund í dag en þá höfðu blaðamenn verið boðaðir í ráðherrabústaðinn. Þessar 1200 milljónir eru til viðbótar við þær 4,6 milljarða króna sem bætt var við vegamálin á þessu ári.

„Það er verið að forgangsraða þó nokkrum hluta í vegamálin en stóra forgangsröðunin var til heilbrigðis- og velferðarmála við fjárlagagerð á þessu áru. Þó væntingar hafi verið miklar til samgönguáætlunar og við náum ekki að uppfylla það þá erum við að stíga stærri skref í samgöngumálum en hefur verið gert í undanförnum árum,“ sagði Jón. 

Aðspurður um hvort eitthvað af þessu fjármunum fari í Reykjanesbrautina, benti hann á að þegar hafa verið lagðar um 1200 milljónir króna í brýn verkefni á Reykjanesbraut en framkvæmdir við það væru hafnar. Í þessari viðbótarfjárhæð er ekki gert ráð fyrir frekari úrbótum þar. Hins vegar er í skoðun sérstök fjármögnun til annarra vegamála, að sögn Jóns. „Ef hún verður að veruleika þá er ljóst að við munum geta farið hratt í verulegar umbætur á þeirri leið [Reykjanesbraut],“ sagði Jón.

Jón benti á að við vinnu að fjárlagagerð hafi myndast misskilningur milli fjárlaganefndar og Vegagerðar um hvaða verkefni væru inni. Með þessu viðbótarfjármagni væri verið að vinda ofan af því.  

„Ég get notað miklu meiri pening en ég er raunsær í öllum mínum kröfur. Við verðum að skoða heildarmyndina,“ sagði Jón þegar fréttamaður Rúv spurði hvort hann hafi ekki óskað eftir hærri fjárhæð.

Í þessu samhengi benti hann á að brýn þörf væri að bæta samgöngumál sérstaklega þar sem erlendum ferðamönnum hefði fjölgað. Ef farið yrði í alvöru átak í vegamálum þyrfti að líta út fyrir kassann, að sögn Jóns. Hann sagði að slíkt yrði ekki hægt að fjármagna alfarið með ríkissjóði heldur þyrfti það að vera í gegnum aðra gjaldtöku til dæmis skattlagning. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert