Bílum illa lagt og tillitsleysi algengt í bílastæðahúsum

Örtröð myndaðist inni í Traðarkoti, bílastæðahúsi við Hverfisgötu í Reykjavík.
Örtröð myndaðist inni í Traðarkoti, bílastæðahúsi við Hverfisgötu í Reykjavík. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Það var svo illa lagt í húsinu að teljarinn, sem telur inn og út úr húsinu, hélt áfram að hleypa inn bílum,“ segir Kolbrún Jónatansdóttir, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs, í samtali við Morgunblaðið, en síðastliðið laugardagskvöld myndaðist örtröð inni í Traðarkoti, bílastæðahúsi við Hverfisgötu í Reykjavík.

Þetta kvöld var margt um að vera í miðbænum, s.s. tónleikahald og leiksýningar, og fóru margir akandi í bæinn. Þeir sem ætluðu að leggja bílum sínum í Traðarkoti lentu hins vegar í vandræðum því húsið hleypti öllum inn sem vildu – þó að stæðin væru engin. Einn þessara ökumanna hafði samband við Morgunblaðið og lýsti óánægju sinni með að hafa verið rukkaður um 150 krónur fyrir það eitt að keyra inn í bílastæðahúsið, leita árangurslaust að stæði og keyra út úr því aftur.

Ekki heimilt að sekta

„Það voru á ákveðnu tímabili mjög margir að koma á sama tíma. Og einhverjir voru lengi að athafna sig þannig að aðrir þurftu að bíða, en þá líður sá tími sem fólk hefur til að fara inn og út úr húsinu án þess að borga,“ segir Kolbrún.

Aðspurð segir hún mjög algengt að fólk leggi bílum sínum illa í stæði. „Þetta er gert af ásettu ráði til að fá engan við hliðina á sér,“ segir Kolbrún og bendir á að ekki sé heimilt að sekta menn fyrir slíkt tillitsleysi inni í bílastæðahúsunum.

„Við höfum lítil önnur ráð en að setja aðvörunarmiða á bíla. Ef þetta eru hins vegar langtímanotendur með kort, þá eiga þeir á hættu að fá uppsögn á samningi ef þetta lagast ekki,“ segir Kolbrún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert