Glowie gerir samning við Columbia

Tónlistarkonan Sara Pétursdóttir, sem flestir þekkja betur undir listamannsnafninu Glowie, skrifaði sl. föstudag undir samning við útgáfurisann Columbia í London. Pálmi Ragnar Ásgeirsson, lagahöfundur og meðlimur í StopWaitGo, mun halda áfram að vinna með Söru en hann hefur verið lykilmaður í verkefninu frá upphafi.

Að sögn Sindra Ástmarssonar, umboðsmanns Söru, gátu þau valið á milli útgáfufyrirtækja.

„Mörg plötufyrirtæki sýndu áhuga og höfum við verið á stanslausu ferðalagi síðustu vikur og mánuði. Það má segja að næstum öll stóru plötufyrirtækin hafi sýnt áhuga,“ segir Sindri en þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann stendur í þessum sporum.

„Þetta er þriðji erlendi plötusamningurinn sem ég kem að núna á þremur árum, þessi er þó án efa sá stærsti,“ segir Sindri en hann var meðal annars umboðsmaður Kaleo sem hafa heldur betur slegið í gegn erlendis.

Sindri telur að þetta sé einn stærsti plötusamningur sem Íslendingur hefur gert erlendis, sérstaklega þegar litið er til þess hversu miklum fjármunum verður varið í markaðssetningu af hálfu útgáfufyrirtækisins. Um langtímasamning er að ræða.

Þegar komið er á þetta stig er ekki nóg að hafa einn umboðsmann á Íslandi og því bætist við fjöldi starfsmanna erlendis sem munu vinna að verkefninu. „Teymið hennar Söru verður allt í allt um 50 manns og er ég spenntur að fá að hafa yfirumsjón með því,“ segir Sindri.

Draumurinn að rætast

Sara segist hafa verið hálfdofin þegar hún skrifaði undir samninginn í London á dögunum.

„Þetta er bara búið að gerast svo hratt. Ég var nýkomin úr flugi þegar ég skrifaði undir og náði ekki að sofa neitt. Svo var ég bara hálfdofin restina af deginum. Þegar ég skoða myndir frá þessu sé ég hvað ég stíf, bæði þreytt og svo bara gjörsamlega agndofa yfir þessu öllu saman,“ segir Sara og hlær.

„Þetta er fáránlegt, mér finnst svo stutt síðan þetta var fjarlægt markmið en núna er þetta bara komið og ég að fara að vinna á fullu. Þetta er draumurinn að rætast,“ segir Sara sem naut stuðnings pabba síns í ferlinu.

„Ég var svo heppinn að hafa pabba með mér. Hann er stór partur af þessu öllu saman. Hann var svolítið pabbi allra í þessu, hann er að passa upp á mig og passa að allt sé í lagi. Allir þessir fundir eru á ensku og ég skil kannski ekki alveg allt. Svo líka allt þetta business tal, ég er ekki nógu klár í því en pabbi skilur það alveg. Hann hefur verið stoð mín og stytta í þessu öllu saman,“ segir Sara.

Hún hefur verið að vinna að nýju efni í allan vetur og stefnt er á útgáfu EP-plötu erlendis á næstunni.

Sara segir síðustu vikur og mánuði hafa verið óraunverulegar.
Sara segir síðustu vikur og mánuði hafa verið óraunverulegar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í góðum félagsskap

Columbia gefur út tónlist margra af vinsælustu tónlistmönnum heimsins, má þar nefna Calvin Harris, Adele, Beyonce, Daft Punk, Mark Ronson, Bruce Springsteen, Robbie Williams, Foo Fithgters og Bob Dylan. Það er því ljóst að Sara verður í góðum félagsskap. Sindri segir að stefnt hafi verið að þessu frá upphafi.

„Það hefur verið aðdáunarvert að horfa á Söru vaxa í gegnum þetta ferli og hef ég fulla trú á því að hún eigi eftir að slá í gegn á heimsvísu. Pálmi hefur líka heillað alla sem hann hefur hitt og ljóst að hann á bjarta framtíð fyrir sér sem lagahöfundur á alþjóðlegum vettvangi,“ segir Sindri og bætir við að álagið á alla hafi verið gríðarlegt í þessu ferli en allt í allt hafi um 300 manns verið í sambandi við þau á einhvern hátt.

Fyrst um sinn verður Sara, eða Glowie, kynnt á Bretlandsmarkaði. „Ferdy Unger Hamilton nýskipaður framkvæmdastjóri Columbia í Bretlandi, mun sjálfur koma að verkefninu en hann hefur mikla reynslu í því að koma tónlistarkonum á kortið. Hann hefur verið partur af því að koma á framfæri tónlistarkonum eins og Ellie Goulding, Florence Welch og Lana Del Rey,“ segir Sindri og bætir við að nú þegar hafi verið búin til teymi í Bandaríkjunum og á öðrum lykilmörkuðum sem muni vinna að markaðssetningu Glowie.

Allt annar heimur

Sara segir að síðustu mánuðir og vikur hafi verið óraunveruleg.

„Maður er búinn að hitta fullt af allskyns fólki sem er búið að vinna með stærstu stjörnum heimsins,“ segir Sara og bætir við að fundirnir hafi verið ansi margir sem hún hafi setið. „Þetta er eins og að fara inn í allt annan heim. Svo þegar við komum aftur heim til Íslands tók raunveruleikinn við og maður hugsaði bara, hvað var ég eiginlega að gera? Þetta er allt saman mjög óraunverulegt,“ segir Sara með blik í augum og bros á vör.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka