Hafa ekki efni á tannlækningum

Um helmingur fólks eldra en 67 ára fór til tannlæknis …
Um helmingur fólks eldra en 67 ára fór til tannlæknis á síðasta ári. Að mati viðmælenda Morgunblaðsins er ástæðan mikill kostnaður. Getty Images

Stór hluti fólks, sem orðið er 67 ára eða eldra, veigrar sér við því að leita til tannlæknis vegna kostnaðar og einungis um helmingur fólks á þessum aldri fór til tannlæknis í fyrra. Sjúkratryggingum Íslands ber að endurgreiða þrjá fjórðu hluta tannlæknakostnaðar ellilífeyrisþega, en endurgreiðslan sem fólk fær er í raun talsvert minni þar sem hún miðast við úrelta gjaldskrá. Formaður Landssambands eldri borgara segir leiðréttingu á þessu vera eitt af forgangsmálum samtakanna og formaður Tannlæknafélags Íslands segir verulega brotið á rétti eldri borgara með þessu fyrirkomulagi.

Samkvæmt reglugerð um endurgreiðslu tannlæknakostnaðar ber Sjúkratryggingum Íslands að endurgreiða þeim sem orðnir eru 67 ára 75% tannlæknakostnaðar. Þar er miðað við svokallaða ráðherragjaldskrá, sem að sögn Ástu Óskarsdóttur, formanns Tannlæknafélags Íslands, hefur ekki fylgt verðlagi og hefur lítið hækkað frá 2004 eða í 13 ár. „Því má gera ráð fyrir að endurgreiðslan sé raunverulega 30-40%, eins og verðlag er í dag,“ segir Ásta. „Það er í raun verulega brotið á rétti þessa hóps.“

Ásta Óskarsdóttir.
Ásta Óskarsdóttir.

Hún segir að tannlæknar hafi þurft að fylgja verðlagi, eins og allir aðrir sem selji vörur og þjónustu. „Öryrkjar og aldraðir fá lífeyri, sem er verulega skorinn við nögl. Lítið sem ekkert er afgangs til að standa straum af tannlæknakostnaði. Svo nær fólk mun hærri aldri og að auki eru fleiri með eigin tennur nú en áður, Það útheimtir meira viðhald á tönnum og þar með aukinn kostnað.“ Að sögn Ástu var hlutfall fólks, 67 ára og eldri, sem fer til tannlækna skoðað sérstaklega á árabilinu 2010-2014. Hlutfallið var á milli 52 og 58,5% sem Ásta hefur verulegar áhyggjur af.

Fyrir síðustu alþingiskosningar funduðu forsvarsmenn Tannlæknafélagsins með fulltrúum helstu stjórnmálaflokka þar sem staða tannheilsu allra lífeyrisþega var rædd. „Allir flokkar sýndu áhuga á því að huga að bættri tannheilsu hjá lífeyrisþegum,“ segir Ásta. „Á síðasta ári lögðu Sjúkratryggingar (SÍ) og Tannlæknafélagið drög að samningi sem gilda átti um endurgreiðslur fyrir alla lífeyrisþega og SÍ reiknaði út að þetta myndi kosta rúmlega einn milljarð. Ein af þeim hugmyndum, sem komið hafa upp, er að tekið verði upp svokallað tappagjald á drykki sem eru skaðlegir tönnunum, eins og t.d. gosdrykki með sykri og glerungseyðandi sýrum til að fjármagna pakkann.“

Ásta segir að Tannlæknafélagið hafi áhuga á að koma að innleiðingu slíks samnings og segir að stjórn félagsins hafi fundað með Óttari Proppé heilbrigðisráðherra.

Hjá tannlækni.
Hjá tannlækni. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Áhyggjur af stöðu öryrkja

Einn er sá hópur eldra fólks sem sérstök ástæða er til að hafa áhyggjur af hvað varðar tannheilsu, að mati Ástu. Það eru þeir sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum, en þessi hópur ætti að fá 100% endurgreiðslu tannlæknakostnaðar samkvæmt gjaldskrá SÍ. „Tennur eru ekki skimaðar þegar fólk flytur á þessi heimili, þannig að oft kemur það fyrir að fólk er með talsvert af vandamálum í munni sem starfsfólk gerir sér því miður ekki grein fyrir. Þeim fjölgar alltaf sem leggjast inn fulltenntir eða að hluta tenntir. Það er mikil breyting frá því sem var áður þegar flestir voru með falskar tennur sem auðveldara var að hreinsa.“ Ásta segir að tannvandamál geti valdið vandamálum við að matast, haft áhrif á almenna líðan og valdið fólki svefnleysi. „Sumir í þessum hópi eiga erfitt með að tjá sig og geta lítið sem ekkert sagt frá eigin vanlíðan,“ segir Ásta.

Hún segir að það sama gildi fyrir þann hóp eldra fólks sem enn býr heima en er að byrja að þiggja heimahjúkrun. „Þar þyrfti líka að koma inn skimun fyrir tannheilsu til að bæta lífsgæði fólks og fyrirbyggja vanlíðan vegna tannverkja.“ Aðgengi að tannlæknaþjónustu er einnig mikilvægt að skoða að mati Ástu. Hún segir forsvarsmenn öldrunarheimila segja að erfitt geti reynst að koma fólki á tannlæknastofurnar og mikið sé spurt um færanlega tannlæknaþjónustu, a.m.k. til þeirra sem veikastir séu.

Ásta segir að fyllsta ástæða sé til að huga að stöðu annarra hópa en eldra fólks. „Við höfum ekki síst áhyggjur af stöðu öryrkja, það liggja ekki fyrir nákvæmar komutölur fyrir þann hóp en það er tilfinning okkar tannlækna að þessi hópur sé hættur að láta sjá sig,“ segir hún.

Reynir Jónsson.
Reynir Jónsson.

Fengu 40% endurgreitt

Reynir Jónsson, tryggingayfirtannlæknir hjá Sjúkratryggingum Íslands, segir að í fyrra hafi 20.920 ellilífeyrisþegar greitt rúmlega 1,5 milljarða fyrir tannlækningar sínar. Það eru um 53% þeirra sem náð höfðu 67 ára aldri. Af þessum eina og hálfa milljarði fengust 40% eða 600 milljónir endurgreiddar frá SÍ, þrátt fyrir að reglur um endurgreiðslu kveði á um að SÍ eigi að greiða 75% af tannlæknakostnaði þessa hóps. Spurður hvort mikið af fyrirspurnum berist SÍ vegna þessa segir Reynir svo vera. „Jú, eðlilega fáum við mjög mikið af fyrirspurnum og kvörtunum frá lífeyrisþegum vegna þessa. En það er hins vegar á valdi ríkisstjórnarinnar að leysa vandann, ekki SÍ.“

Haukur Ingibergsson.
Haukur Ingibergsson.

Komið að eldri borgurum

Haukur Ingibergsson, formaður Landssambands eldri borgara, segir félagsmenn talsvert hafa samband við samtökin vegna mikils tannlæknakostnaðar sem fólk hafi ekki tök á að greiða. „Kostnaðarþátttaka eldri borgara er einfaldlega of mikil og Alþingi hefur ekki tryggt Sjúkratryggingum Íslands fjármagn til að fylgja eftir ákvæðum um greiðslu kostnaðar. Þessu þarf að breyta. Góð tannheilsa er mikilvæg til að fólk haldi heilsu og nærist eðlilega. Þetta er ekki bara spurning um útlit og fallegt bros. Á undanförnum árum hefur verið byggð upp góð tannlæknaþjónusta fyrir börn og unglinga og nú er komið að eldri borgurum að fá samsvarandi þjónustu,“ segir Haukur.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra gaf ekki kost á viðtali um málið, en í skriflegu svari hans segir að á fjárlögum þessa árs sé ekki gert ráð fyrir breytingum á hlutfalli endurgreiðslu. „Verið er að kanna hvort hægt sé að stíga skref til breytinga á næsta ári. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustu,“ segir í svarinu.

Óttarr Proppé.
Óttarr Proppé. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert