Miklar breytingar í hafinu

Freydís Vigfúsdóttir með fyrstu súluna sem var GPS-merkt.
Freydís Vigfúsdóttir með fyrstu súluna sem var GPS-merkt.

Breytingar í hafrænu umhverfi Norður-Atlantshafs hafa haft mikil áhrif á lífríkið í og við sjóinn. Þessar breytingar voru ræddar á alþjóðlegum þverfaglegum vinnufundi sem haldinn var í gær og í fyrradag í Öskju Háskóla Íslands.

Fundinn sóttu vísindamenn úr ýmsum fræðigreinum sjávarrannsókna frá Bandaríkjunum, Danmörku, Færeyjum, Íslandi, Kanada, Noregi og Stóra-Bretlandi.

Dr. Freydís Vigfúsdóttir, sem starfar við Háskóla Íslands og Háskólann í Exeter, var fundarstjóri. Hún sagði að í vinnustofunni hefði verið leitast við að samþætta niðurstöður rannsókna vísindamanna í hinum ýmsu fræðigreinum sjávarrannsókna og að fá nýja sýn á viðfangsefnið.

„Það er lykillinn að því að henda reiður á umfangi og alvarleika vandans,“ segir Freydís í Morgunblaðinu í dag. „Vandamálið er stórt og ekki séríslenskt. Þetta á við um allt Norður-Atlantshaf. Einnig eru miklar breytingar að verða í suðurhluta Atlantshafs.“

Ýmissa breytinga fór að gæta fyrir alvöru á 9. áratug síðustu aldar í kringum Bretland. Næsta áratug þar á eftir fór lífríkið að sýna svipuð merki um breytingar víðar í Norður-Atlantshafi, m.a. við Ísland. „Stofnar lífvera sem tróna í efri þrepum fæðukeðjunnar eins og ýmsir stofnar sjófugla og sumra hvalategunda hafa hnignað í nokkuð langan tíma,“ sagði Freydís.

Þannig hefði viðkoma íslenskra sjófuglastofna verið almennt slök í rúman áratug með örfáum staðbundnum undantekningum. Hún sagði tegundir sem hefðu sýnt árlegan viðkomubrest eiga það sameiginlegt að hafa reitt sig á sandsíli sér til viðurværis á ákveðnum árstíma við suður- og vesturströndina. Það ætti t.d. við um lunda, ritu og kríu á varptíma og aðrar bjargfuglategundir. Rannsóknir Gísla Víkingssonar á Hafrannsóknastofnun segðu svipaða sögu fyrir hrefnustofninn.

„Við höfum ekki nægar upplýsingar um allar þessar tegundir og tengsl þeirra við fæðuvef hafsins bæði að sumri og vetri, þannig að við vitum ekki hvert raunverulegt umfang vandans er á Norður-Atlantshafs-skala, né heldur hér á Íslandsmiðum,“ sagði Freydís. Hún sagði að íslenskir vísindamenn væru yfirleitt á einu máli um að einnig vanti meiri upplýsingar og rannsóknir um neðri þrep fæðukeðjunnar og þá sérstaklega þær fiskitegundir sem gegndu lykilhlutverki fyrir aðrar dýrategundir, eins og sandsíli.

„Rannsóknir á fæðu, s.s. sandsíli, og tengsl mismunandi þátta í fæðuvef sjávarins eru lykilatriði í að skilja þá ferla sem nú eru í gangi. Þetta er eitthvað sem vantar og nauðsynlega þarf að efla í okkar rannsóknarsamfélagi,“ sagði Freydís.

Hún sagði að Hafrannsóknastofnun sinnti af mikilli elju bæði hafrannsóknum og áturannsóknum. Niðurstöður þeirra sýndu bæði að sveifla væri milli ára en að auki að yfir lengri tíma hefðu ákveðnar breytingar í hafinu verið mældar á t.d. seltu og sjávarhita.

Freydís sagði að samkvæmt niðurstöðum eins haffræðingsins á vinnustofunni, Penny Holiday, væru á stórum skala og til lengri tíma litið engar vísbendingar um að þróuninværi að snúast við þrátt fyrir að stök ár sýndu annað mynstur á smáu svæði. Megintilhneigingin væri til enn frekari hlýnunar hafsins og breytinga á ýmsum þrepum fæðukeðjunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka