Alls hafa borist 928 hugmyndir í hugmyndasöfnunina „Hverfið mitt“ sem Reykjavíkurborg stendur fyrir en söfnuninni lýkur í dag.
Stór hluti hugmyndanna snýr að frekar almennum hlutum eins og leikvöllum, hraðahindrunum, gangbrautum og göngubrúm en einnig má finna inn á milli nokkuð áhugaverðar hugmyndir sem myndu breyta miklu yrðu þær að veruleika.
Til að mynda stingur einn borgarbúi upp á því að bjórgarður yrði opnaður á Klambratúni í hlutanum sem snýr í suður við Kjarvalsstaði og að bjórframleiðendur eins og Víking, Egils eða Kaldi yrðu fengnir í samstarf.
„Stíla má inn á að hafa opið frá maí til loka ágúst og eingöngu um helgar. Fá hljómsveit ("kapelle") til að leika viðeigandi músik,“ skrifar sá sem ber ábyrgð á hugmyndinni.
Annar borgarbúi stingur upp á því að koma hjólabátum á Tjörnina við Hljómskálagarðinn og segir að bátarnir yrðu „frábær viðbót við afþreyingarmöguleika fjölskyldna á sumrin.“
Bent er á að mögulega þyrfti að hreinsa upp tjörnina, steypa kant og gera litla flotbryggju. „Þá væri hægt að vera með önnur vatnatengd leikföng á svæðinu. Það eru til alls konar útfærslur á hjólabátum, þetta væri tiltölulega ódýr viðbót við annars frábæran Hljómskálagarð,“ skrifar hugmyndasmiðurinn.
Hljómskálagarðurinn er vettvangur nokkurra hugmynda og stingur einn m.a. upp á því að reist verði stytta af Jóni Páli Sigmarssyni, annað hvort í fullri stærð eða yfirstærð, í Hljómskálagarðinum. Jafnframt er stungið upp á því að í kringum styttuna mættu vera „skemmtileg útitæki til að efla krafta“.
Önnur hugmynd sem er örlítið flóknari er að flytja gömlu húsin í Árbæjarsafni í Vatnsmýrina og gefa þeim „eitthvert hlutverk. Það mætti setja þau niður vestast á suður-vestur flugbrautinni og tengja byggðina í Skerjafirði og Litla-Skerjafirði saman á ný en hún var skorinn í tvennt þegar þetta hernaðarmannvirki var gert 1941-42,“ segir í textanum við hugmyndina.
Þá stingur einn borgarbúi upp á því að Parísarhjóli verði komið fyrir við Hallgrímskirkju og kallað Reykjavík Eye rétt eins og London Eye í Lundúnum. Bent er á að þá verði til betri staður fyrir ferðamenn og Íslendinga til að taka myndir heldur en í turni Hallgrímskirkju.
Hagatorg, hringtorgið sem tengir saman Espimel, Birkimel, Dunhaga, Fornhaga og Neshaga er töluvert til umræðu á vefnum. Einn stingur upp á því að svæði verði nýtt undir íbúðir á meðan annar segir að hægt væri að breyta torginu í almenningsgarð með tengsl við skólana í kring.
„Nú er Hagatorg stórt grænt svæði sem er umlukið götu og nýtist engan veginn. Með því að loka Neshaga og Fornhaga næst torginu og leiða umferð af Birkimel annars vegar niður Dunhaga og hins vegar niður Hagamel mætti búa til stórt grænt svæði, sem yrði hluti af skólalóðum þriggja skóla,“ skrifar hugmyndasmiðurinn.
Annar borgarbúi stingur upp á því að Hagatorgið verði fyllt af blómstrandi haustlaukum af öllum gerðum, að minnsta kosti 75% af heildarstærð torgsins. „Mars-apríl ár hvert springur Hagatorgið út í öllum regnbogans litum. Það þarf að skipta út jarðvegi þar sem laukar eiga að koma til að tryggja það að Vorblómabomban gleðji íbúa hverfisins ár eftir ár eftir ár. Krókusar, túlípanar, páskaliljur, snæstjarna, vorboðar, vetrargosi, perluliljur. Hægt væri að t.d. leita til nemenda Melaskóla um útfærslu á mynstri,“ segir í textanum við hugmyndina.