„Við erum bara með málið til meðferðar,“ segir Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari í samtali við mbl.is. Í dag er ein vika liðin frá því að embættinu bárust gögn vegna hvarfs og andláts Birnu Brjánsdóttur og er málið nú til meðferðar hjá héraðssaksóknara. Embættið hefur því þrjár vikur til viðbótar til stefnu. Þegar sá tími er á enda þarf að vera búið að gefa út ákæru í málinu en þá rennur út 12 vikna gæsluvarðhald yfir manninum sem er í haldi vegna málsins.
Ólafur kveðst ekki geta tjáð sig um hversu langt í ferlinu málið er komið né þá hvort eða hvenær gefin verði út ákæra. „Við gefum í raun engar upplýsingar um það fyrr en það liggur fyrir,“ segir Ólafur. „Það var byrjað að vinna í þessu máli um leið og það kom og það er bara í ferli.“
Spurður hvort málið hafi forgang hjá embættinu fram yfir önnur mál sem þar eru til meðferðar segir Ólafur svo vera. Í raun sé það sjálfkrafa sökum þess stutta tímaramma sem er til stefnu.
„Það skapast í raun „automatískt“ ákveðinn forgangur á það sökum þess að viðkomandi er búinn að vera það lengi í gæslu og það er ekki hægt að halda honum nema í 12 vikur í gæslu nema það sé búið að gefa út ákæru í millitíðinni. Sú regla skapar náttúrlega sjálfkrafa ákveðinn forgang á málinu,“ útskýrir Ólafur, sem að öðru leyti getur ekki tjáð sig um málið.