Í liðinni viku kom Hæstiréttur Íslands í veg fyrir að skiptastjóri yfir dánarbúi gerði samning við breskt fyrirtæki sem nefnist K2 Intelligence. Að beiðni skiptastjóra hugðist fyrirtækið grennslast fyrir um hvort sögusagnir um leynilega bankareikninga á aflandssvæðum ættu við rök að styðjast.
Hjá fæstum hringja bjöllur þegar fyrirtækið K2 Intelligence er nefnt en stofnendur þess hafa oft verið milli tannanna á fólki vegna alþjóðlegra deilumála. Þá blandaðist fyrirtæki sem sömu menn stofnuðu og ráku allt frá árinu 1972 inn í deilur milli slitabús Glitnis og fyrrverandi eigenda bankans en slitastjórn hans kallaði fyrirtækið til starfa í leit að földum fjársjóðum.
Fyrirtækið K2 Intelligence var stofnað árið 2009 af feðgum að nafni Jules B. Kroll, sem fæddur er í maí 1941, og Jeremy M. Kroll, sem er elstur í hópi fjögurra systkina. Fyrirtækið stofnuðu þeir um ári eftir að Jules hvarf frá fyrirtækinu Kroll Inc. sem hann hafði stofnað árið 1972. Hafði hann selt það fimm árum áður til Marsh & McLennan fyrir 1,9 milljarða dollara, jafnvirði 210 milljarða íslenskra króna.
Þeir feðgar eru þó ekki einu eigendur K2 og hafa stórir fjárfestar sýnt því áhuga á síðustu árum. Þannig keypti til dæmis American International Group (AIG) hlut í fyrirtækinu árið 2015. Kom fram í New York Times þegar kaupin gengu í gegn að AIG hefði séð virði í því að tengjast K2 vegna sérþekkingar þeirra á netárásum en í dag er markaður fyrir tryggingar gegn þeirri óáran sístækkandi markaður fyrir tryggingasala.
Hjá K2 Intelligence starfa yfir 300 manns og það heldur úti skrifstofum í London, Madrid og Tel Aviv.
Líkt og Kroll sérhæfir K2 Intelligence sig í rannsóknarverkefnum tengdum eftirgrennslan eftir týndum eignum, mútu- og spillingarrannsóknum, rannsóknum tengdum sviksemisbrotum, áreiðanleikakönnunum á fyrirtækjum og einstaklingum, áhættugreiningum og mati á því í hvaða fjölmiðlum fyrirtæki eigi að auglýsa. Þá sérhæfir fyrirtækið sig einnig í tölvuöryggismálum og veitir ráðgjöf um hvernig hægt sé að verjast tölvuárásum og stoppa í önnur göt sem geta reynst á tölvukerfum fyrirtækja og stofnana.
Í lok síðasta árs var rekið undarlegt mál fyrir dómstólum í Bretlandi þar sem fram kom að K2 Intelligence hefði ráðið njósnara í gervi kvikmyndagerðarmanns í þeim tilgangi að koma honum inn í samtök sem berjast fyrir alþjóðlegu banni gegn asbest-framleiðslu, en asbest er efni sem sannað þykir að valdi krabbameini í öndunarfærum fólks.
Þóttist hann hafa samúð með málstaðnum og að hann væri að vinna að heimildarmynd um baráttuna gegn hinu hættulega efni. Verkefni njósnarans var hins vegar í raun fólgið í, að sögn The Guardian sem fjallaði um málið í desember síðastliðnum, að safna viðkvæmum upplýsingum um forsprakka samtakanna, baráttuna sjálfa og þær aðferðir sem þau hugðust beita í baráttunni á komandi árum.
K2 hefur hafnað því fyrir dómstólum að upplýsa hvaða fyrirtæki greiddi fyrir þá þjónustu að koma njósnaranum inn í þrýstihópinn en meðal helstu framleiðenda asbests í heiminum eru Rússar, Kínverjar, Brasilíumenn og Kasakar.
Þótt K2 Intelligence hafi ekki komið við sögu í íslensku réttarkerfi fram til þessa hefur fyrirtækið sem Jules Kroll stofnaði og byggði upp yfir 40 ára tímabil skotið upp kollinum í umræðunni hérlendis. Þannig kom fram í eftirmálum bankahrunsins að slitastjórn Glitnis hefði ráðið fyrirtækið til starfa í þeirri viðleitni að varpa ljósi á ákveðna þætti í starfsemi Glitnis banka á árunum fyrir hrun.
Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu 16. október 2010 var sagt frá því að starfsmaður Íslandsbanka og fyrrverandi starfsmaður Glitnis hefði lagt fram kvörtun til dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur vegna starfshátta og framgöngu slitastjórnar Glitnis. Kom þar fram að starfsmaðurinn umræddi hefði verið kallaður til skýrslutöku hjá stjórninni en að þegar þangað var komið hefði komið í ljós að henni var stýrt af Richard Abbey sem starfaði hjá Kroll en auk þess hefðu setið fundinn þau Stephen West frá Kroll og Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar.
Í fyrrnefndri umfjöllun blaðsins sagði meðal annars af fundinum: Þá á Michael að hafa sagt: „Þú ert að fela eitthvað. Við þurfum að komast inn í hausinn á þér.“ Í beinu framhaldi af því hafi Richard sagt að þeir væru með tvær stefnur í gangi og það væri alltaf hægt að bæta fólki inn í þær. Steinunn hafi svo bætt við eitthvað á þessa leið: „Það er ekkert markmið okkar í sjálfu sér að eyðileggja sem flestar fjölskyldur.“
Þá kom einnig fram í frétt Morgunblaðsins 10. júlí sama ár að Kroll hefði grafið upp tölvupósta sem slitastjórn Glitnis notaði í málarekstri gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni en stjórnin taldi að póstarnir sönnuðu að hann ætti yfir 200 milljónir punda á bankareikningum í Bretlandi.
Hæstiréttur taldi ekki byggjandi á orðrómi
Í liðinni viku felldi Hæstiréttur Íslands úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að Láru V. Júlíusdóttur hrl., sem er skiptastjóri yfir dánarbúi hjónanna Sigríðar Guðmundsdóttur og Ingvars Helgasonar, væri heimilt að ráða til starfa breska rannsóknarfyrirtækið K2 Intelligence en fyrirtækið var stofnað af sömu aðilum og átt höfðu Kroll frá stofnun þess 1972.
Fyrirtækið sérhæfir sig meðal annars í því að afla gagna í deilumálum milli aðila. Á heimasíðu fyrirtækisins segir að starfsmenn þess séu sérfræðingar í „greiningu á innanhúsgögnum, skjölum og samskiptum ásamt því að safna saman ytri upplýsingum“ sem það í kjölfarið getur tengt saman og gert að öflugu efni til stuðnings málarekstri viðskiptavinarins.
Lára V. Júlíusdóttir hafði í hyggju að ráða K2 til þess að rannsaka hvort sögusagnir, um mögulega erlenda leynilega bankareikninga, væru á rökum reistar. Í drögum að samningi milli dánarbúsins og K2 Intelligence, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, er beiðni dánarbúsins meðal annars lýst með þessum orðum: „Þér óskið þess að fundin verði staðsetning bankareikninga á aflandssvæðum sem voru í eigu Ingvars Helgasonar og Sigríðar Guðmundsdóttur og að mat verði lagt á hvort Guðmundur Ágúst Ingvarsson og Júlíus Vífill Ingvarsson hafi aflað sér aðgengis að þeim.“
Hæstiréttur taldi ekki, eins og áður sagði, ástæðu til að veita skiptastjóra heimild til að ganga til samninga við K2. Þá segir meðal annars í dómi réttarins: „Af gögnum málsins verður ekki ráðið að nokkuð annað liggi fyrir en orðrómur um að D hafi átt bankareikninga erlendis þegar hann andaðist á árinu 1999. Þannig virðist ekkert hafa verið upplýst um í hvaða löndum eða bönkum slíkir reikningar gætu hafa verið eða um innstæður á þeim.“
Þá bendir Hæstiréttur einnig á að á skiptafundum hafi enginn erfingi haldið fram kröfu um að kanna mögulega tilvist fyrrnefndra reikninga frekar. Á þeirri staðreynd byggir Hæstiréttur þá afstöðu sína að ekki séu nein „efni til að skiptastjóri tæki af sjálfsdáðum ákvörðun um að ráðast á kostnað dánarbúsins í umfangsmikla rannsókn, sem gengi verulega lengra en leiðir af áðurnefndri 1. mgr. 54. gr. laga nr. 20/1991 og ætla verður að alls sé óljóst hvort skilað gæti nokkrum árangri.“
Í fyrrnefndum drögum að samningi milli dánarbúsins og K2 kemur fram að gert sé ráð fyrir að fyrri hluti rannsóknarinnar kosti 35.000 pund eða rétt um 5 milljónir króna en ekki er sérstaklega gerð grein fyrir hvað síðari hluti hennar hefði kostað en ljóst er af verkefnislýsingunni að hann hefði orðið mun umfangsmeiri en sá sem tengdist fyrri hluta verksins. Þó kemur fram að tímagjald starfsmanna K2 hlaupi á bilinu 210 til 360 pund, jafnvirði 29.000 til 50.000 króna. Þá var einnig gert ráð fyrir að Kroll hefði óheftan aðgang að skiptastjóra meðan á rannsókn málsins stæði. Ekkert mat var lagt á það í samningsdrögunum hver kostnaður dánarbúsins af því gæti orðið.