Á nýliðnu ári var upplýst frammi fyrir breskum dómstólum að rannsóknarfyrirtækið K2 Intelligence hefði ráðið njósnara til starfa til að fylgjast með og safna viðkvæmum gögnum um baráttufólk gegn notkun efnisins asbests sem vitað er að sé krabbameinsvaldandi.
Fyrirtækið var stofnað árið 2009 af Jules Kroll sem 37 árum fyrr hafði stofnað hið umdeilda rannsóknarfyrirtæki Kroll Inc., að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
K2 Intelligence komst nýlega í fréttir hér á landi þegar Hæstiréttur kom í veg fyrir að lögmaður sem skipaður hafði verið skiptastjóri dánarbús réð K2 Intelligence til starfa fyrir hönd búsins. Ætlaði lögmaðurinn að fá fyrirtækið til að kanna hvort orðrómur um tilvist leynilegra bankareikninga erlendis ætti sér einhverja stoð í raunveruleikanum. Í Morgunblaðinu í dag er ljósi varpað á fyrirtækið umdeilda.