„Er litla Ísland virkilega orðið svona? Er ekki meiri kærleikur á milli okkar sérstaklega eftir Birnu-málið?“ spyr Rannveig Tera Þorfinnsdóttir en hún varð fyrir tilefnislausri árás á Hressingarskálanum í gærkvöldi. Hún er öll bólgin og lemstruð eftir ofbeldið, með sokkin augu og sár í eyranu.
Rannveig var á leið út á dansgólfið og var kýld í gagnaugað af fullu afli og við það dettur hún niður í gólfið og þá heldur árásarmaðurinn, sem er kona, áfram að láta höggin dynja á henni þar til dyraverðirnir draga hana af henni og hlúa að Rannveigu. Þegar dyraverðirnir ætla að hafa upp á ofbeldismanninum er konan farin.
„Ég var að koma af klósettinu og geng inn á dansgólfið að hitta vinkonur mínar þegar ég er allt í einu kýld og dett niður í gólfið,“ segir Rannveig. Hún segist hafa verið í góðu stuði með vinkonum sínum þetta kvöld og hafi ekki lent í neinum útistöðum við neinn mann.
Lögreglan fór með Rannveigu á bráðamóttökuna þar sem hlúð var að henni. Þar þurfti hún að bíða í dágóða stund því mikið álag var á bráðamóttökunni. Eftir það fór hún heim. Henni var ekki boðin nein áfallahjálp eftir árásina. Hún segist samt telja að hún myndi njóta góðs af því ef hún fengi hana. „Þetta er mikið sjokk. Ég bjóst alls ekki við þessu,“ segir Rannveig.
Rannveig er bólgin við gagnaugað og með sár í eyranu, bæði augun er mjög bólgin. Hendurnar eru bólgnar og sárar eftir að hafa þurft að bera þær fyrir sig til að verjast höggunum. Lærið er marið eftir fallið í gólfið.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fólk verður fyrir tilefnislausri árás í miðbæ Reykjavíkur. Fyrir mánuði réðst hópur fólks á tvo menn og eina konu í miðbænum með þeim afleiðingum að það blæddi inn á heila eins brotaþolans sem var haldið sofandi í nokkra daga.
Leggur fram kæru á mánudaginn
Á mánudaginn ætlar Rannveig að leggja fram kæru. „Ég vona að lögreglan verði þá búin að fá allt myndefni úr myndavélunum svo það verði hægt að finna hana,“ segir Rannveig. Nokkur vitni af árásinni hafa þegar gefið sig fram við lögreglu.
Hún hvetur alla sem geta mögulega veitt upplýsingar um ofbeldið að hafa samband við lögreglu í síma 444-1000. Árásin átti sér stað um klukkan fjögur í Hressingarskálanum aðfararnótt laugardagsins.