Brýnt að efla fjármálalæsi ungs fólks

Næsta vika er tileinkuð fjármálalæsi ungs fólks.
Næsta vika er tileinkuð fjármálalæsi ungs fólks. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

„Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsis hjá ungu fólki og þörfina á að auka kennsluna á þessu efni. Það eru flestir sammála því að það er brýnt,“ segir Kristín Lúðvíksdóttir, verkefnastjóri Fjármálavits hjá Samtökum fjármálafyrirtækja. 

Vika sem er helguð fjár­málalæsi ungs fólks um allan heim hefst formlega á morgun og stendur til 2. apríl þegar nemendur úr Háteigsskóla aðstoða Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, að hringja inn opnun markaða í Kauphöllinni.

Fjöldi viðburða alla vikuna

Fjöl­breytt dag­skrá verður hér af þessu tilefni sem er haldin um allan heim undir flaggi Alþjóðlegrar fjármálalæsisviku og Evrópsku peningavikunnar.

Í fjölmörgum grunnskólum landsins er námsefnið Fjármálavit notað sem er kennsluefni í fjármálafræðslu og Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa þróað. Í tilefni alþjóðlegu fjármálalæsisvikunnar heimsækja starfsmenn SFF Áslandsskóla. Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson, höfundar og leikarar verksins Unglingsins, kíkja í heimsókn og spjalla við nemendur um fjármál. Þeir hafa m.a. unnið nokkur myndbönd fyrir Fjármálavit sem hefur verið dreift á samfélagsmiðlum.

Kristín Lúðvíksdóttir, verkefnastjóri fjármálafræðslu SFF.
Kristín Lúðvíksdóttir, verkefnastjóri fjármálafræðslu SFF. mbl.is/Ófeigur

Ný kennslubók og keppni milli skóla í fjármálalæsi

Ný kennslubók, „Lífið er rétt að byrja“, eftir Gunnar Baldvinsson, sem er viðbót við námsefni á vegum Fjármálavits, verður afhent öllum grunnskólum landsins. Þetta námsefni er sérhannað fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskólans. 

Efnt verður til keppni í fjármálalæsi. Um er að ræða gagnvirkan netleik sem reynir á þekkingu, úrræðasemi og ráðdeild unglinga í fjármálum. Leikurinn stendur yfir nokkra daga og fær skólinn sem sigrar vegleg verðlaun. 

Á miðvikudaginn í næstu viku verður ráðstefna um fjármálalæsi ungs fólks í Háskólabíói. Sjá nánar hér.  

„Alþjóðleg fjármálalæsisvika á Íslandi er hluti af alþjóðlegri vitundarvakningu sem ætlað er að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsismennt­unar, stuðla að viðhorfsbreytingu í fjármálum og vinna að eflingu fjármálalæsis og aðgengi ungmenna að öruggri og barnvænni fjármála­þjónustu um heim allan,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert