„Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsis hjá ungu fólki og þörfina á að auka kennsluna á þessu efni. Það eru flestir sammála því að það er brýnt,“ segir Kristín Lúðvíksdóttir, verkefnastjóri Fjármálavits hjá Samtökum fjármálafyrirtækja.
Vika sem er helguð fjármálalæsi ungs fólks um allan heim hefst formlega á morgun og stendur til 2. apríl þegar nemendur úr Háteigsskóla aðstoða Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, að hringja inn opnun markaða í Kauphöllinni.
Fjölbreytt dagskrá verður hér af þessu tilefni sem er haldin um allan heim undir flaggi Alþjóðlegrar fjármálalæsisviku og Evrópsku peningavikunnar.
Í fjölmörgum grunnskólum landsins er námsefnið Fjármálavit notað sem er kennsluefni í fjármálafræðslu og Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa þróað. Í tilefni alþjóðlegu fjármálalæsisvikunnar heimsækja starfsmenn SFF Áslandsskóla. Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson, höfundar og leikarar verksins Unglingsins, kíkja í heimsókn og spjalla við nemendur um fjármál. Þeir hafa m.a. unnið nokkur myndbönd fyrir Fjármálavit sem hefur verið dreift á samfélagsmiðlum.
Ný kennslubók, „Lífið er rétt að byrja“, eftir Gunnar Baldvinsson, sem er viðbót við námsefni á vegum Fjármálavits, verður afhent öllum grunnskólum landsins. Þetta námsefni er sérhannað fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskólans.
Efnt verður til keppni í fjármálalæsi. Um er að ræða gagnvirkan netleik sem reynir á þekkingu, úrræðasemi og ráðdeild unglinga í fjármálum. Leikurinn stendur yfir nokkra daga og fær skólinn sem sigrar vegleg verðlaun.
Á miðvikudaginn í næstu viku verður ráðstefna um fjármálalæsi ungs fólks í Háskólabíói. Sjá nánar hér.
„Alþjóðleg fjármálalæsisvika á Íslandi er hluti af alþjóðlegri vitundarvakningu sem ætlað er að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsismenntunar, stuðla að viðhorfsbreytingu í fjármálum og vinna að eflingu fjármálalæsis og aðgengi ungmenna að öruggri og barnvænni fjármálaþjónustu um heim allan,“ segir í tilkynningu.