Fyrstu fermingarnar á höfuðborgarsvæðinu hófust um helgina. Í dag voru fermd alls 60 fermingarbörn í Grafarvogskirkju í tveimur athöfnum en að sögn Guðrúnar Karls Helgudóttur, sóknarprests í Grafarvogskirkju, munu tæplega 200 börn fermast í kirkjunni í ár í alls tíu athöfnum. „Það er vorboðinn þegar þær byrja,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.
Brugðið var þó örlítið út af vananum í ár og ákváðu prestar sóknarinnar að taka lagið fyrir fermingarbörnin og féll það vel í kramið að sögn Guðrúnar.
„Við sungum Leonard Cohen, Hallelujah, við texta sem ég samdi við þetta lag til fermingarbarnanna,“ segir Guðrún. Fjórir prestar við kirkjuna fermdu börnin, tveir við fyrri athöfnina í morgun og aðrir tveir við athöfnina eftir hádegi og sungu þeir allir. „Fólk tók vel undir og það var mjög skemmtilegt,“ segir Guðrún og hlær.
Ljósmyndari mbl.is leit við þegar seinni fermingin fór fram í Grafarvogskirkju í dag og tók þessar skemmtilegu myndir sem sjá má hér að neðan.