Þurfum að ákveða að treysta regluverkinu

Salan á Arion banka var til umræðu í Sprengisandi í …
Salan á Arion banka var til umræðu í Sprengisandi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjár­mála­eft­ir­litið er orðið geysi­lega öfl­ugt tæki til þess að grípa inn í á fjár­mála­markaði og lands­menn þurfa á ákveðnum tíma­punkti að ákveða að treysta reglu­verk­inu. Þetta er meðal þess sem fram kom í orði Katrín­ar Júlí­us­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra Sam­taka fjár­mála­fyr­ir­tækja, í Sprengisandi á Bylgj­unni í morg­un. Til umræðu voru m.a. sal­an á Ari­on banka, reglu­verk FME og traust lands­manna en gest­ir Kristjáns  Kristjáns­son­ar voru auk Katrín­ar Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, verðandi formaður VR, og Theo­dóra S. Þor­steins­dótt­ir, þingmaður Bjartr­ar framtíðar.

Kristján byrjaði á því að spyrja gesti sína hvað þeim fynd­ist um sölu tæp­lega 30% hlut­ar á Ari­on banka til vog­un­ar­sjóða.

Katrín sagði að sér sem borg­ara þætti það skipta mestu máli að vera með reglu­verk í lagi „sem haldi það vel utan um eign­ar­hald að við þurf­um ekki alltaf að hlaupa upp til handa og fóta þegar hlut­ir á markaði skipta um eig­end­ur.“

FME orðið geysi­lega öfl­ugt

Sagði hún jafn­framt skipta mestu máli að frá hruni hafi verið gerðar gríðarleg­ar breyt­ing­ar á reglu­verki sem marg­ir stjórn­mála­flokk­ar og nokkr­ar rík­i­s­tjórn­ir hefðu komið að og sagði Katrín ástandið nú orðið býsna gott og reglu­verkið að mörgu leyti strang­ara en í Evr­ópu.

Þá bætti hún við að Fjár­mála­eft­ir­litið væri orðið geysi­lega öfl­ugt tæki til að grípa inn í og gerði gríðarlega strang­ar kröf­ur.

„Ég skil al­veg að fólk sé ugg­andi. Þetta er hérna í fyrsta skiptið frá hruni sem það koma eig­end­ur að fjár­mála­fyr­ir­tækj­um aðrir en ríkið og þrota­bú. En ég mæli með því að fólk fari á fme.is þar sem allt er mjög skil­merki­lega sett fram.“

Þá sagði hún það einnig mjög mik­il­væga umræðu að fjár­mála­kerfið eins og það er í dag sé mjög ólíkt því sem það var árið 2008 þegar það hrundi. „Þá fór það upp í átt­falt, tí­falt og jafn­vel tólffalt af vergri lands­fram­leiðslu en er í dag um 150%. Þetta er orðin af­skap­lega hefðbund­in banka­starf­semi,“ sagði Katrín. „Þetta er allt öðru­vísi starf­semi en við sáum þá og það skipt­ir máli að við ræðum mál­in á for­send­um stöðunn­ar 2017 en ekki for­send­um stöðunn­ar 2008.“

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.
Katrín Júlí­us­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fjár­mála­fyr­ir­tækja.

Gerðu hér enga greiða fyr­ir hrun

Theo­dóra sagðist taka und­ir áhyggj­ur margra af söl­unni á Ari­on banka. „Mér finnst að við þurf­um líka að tala við þjóðina af meira umb­urðarlyndi og virðingu í þess­um mál­um. Það eru svo marg­ir sem lentu illa í þessu banka­hruni og þeir hafa enga þol­in­mæði fyr­ir svona. Við get­um ekki slengt ein­hverju fram og út­skýrt það eft­ir á,“ sagði þing­kon­an.

Bætti hún við að henni þætti óþægi­legt að vog­un­ar­sjóðirn­ir væru með eign­ar­hald á bank­an­um þar sem þeir „gerðu eng­an sér­stak­an greiða hér fyr­ir hrun.“

Hún tók þó und­ir orð Katrín­ar um að margt hefði hér breyst síðan í hrun­inu en sagðist ekki viss um að þjóðin væri upp­lýst um það og sagði það sér verk­efni fyr­ir sig að upp­lýsa lands­menn.

Hún ít­rekaði þó að hún væri ekki hrif­in af þess­ari þróun og nefndi sem dæmi eign­ar­hald sjóðanna sem fer ekki yfir 9,99% og sagði hún það enga til­vilj­un þar sem eig­end­ur fjár­mála­fyr­ir­tækja und­ir 10% telj­ist ekki virk­ir eig­end­ur. „Þá þarf ekki að meta orðspor fyr­ir­tækj­anna. Orðspor vog­un­ar­sjóða er ekk­ert sér­stakt. Þeir koma inn þar sem er gróðavon, eru stutt og fara út með hagnað.“

Þá sagði hún einnig óþægi­legt að þessi umræða komi upp á þeim tíma þar sem rík­is­stjórn­in „sitji með það í fang­inu að vera mögu­lega að fara að selja rík­is­bank­ana“.

Theo­dóra sagði það aug­ljóst að þess­ar frétt­ir valdi óró­leika en sýni líka að þjóðin er á varðbergi. „Það er al­veg á hreinu og ég ber virðingu fyr­ir umræðunni og skil hana mjög vel.“

Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Theo­dóra S. Þor­steins­dótt­ir, þingmaður Bjartr­ar framtíðar. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Fjár­mála- og eft­ir­lit­s­kerf­in skrapa botn­inn

Ragn­ar var ekki sam­mála því að það eigi að bera banka­mód­elið eins og það er í dag við mód­elið eins og það var árið 2008 held­ur eins og það var áður en bank­arn­ir voru einka­vædd­ir og starf­semi þeirra og þróun út frá því.

„Nú á að selja bank­ana aft­ur og það ferli er byrjað. Bæði FME og allt eft­ir­lit­s­kerfið og fjár­mála­kerfið sjálft skrap­ar botn­inn í trausti í sam­fé­lag­inu og hef­ur gert það mjög lengi. Það er ekk­ert sem þingið eða aðrir hafa komið með að borðinu sem er þess eðlis að fólk hafi meira traust til banka­kerf­is­ins,“ sagði Ragn­ar.

Sagði hann síðar í þætt­in­um FME hafa að sínu mati al­gjör­lega brugðist í sínu eft­ir­lits­hlut­verki.

Lýsti hann yfir hug­mynd­um sín­um um að hugsa þurfi banka­mód­elið upp á nýtt og taka upp svipað kerfi og Spar­kasse-kerfið í Þýskalandi sem rekið er í „sam­fé­lags­legri mynd“. Benti hann á að þá gæti fólk valið hvort það stundi viðskipti við banka í fjár­fest­inga­starf­semi eða banka „sem sinn­ir sam­fé­lags­legu  hlut­verki“.

Sagði hann jafn­framt að þúsund­ir fjöl­skyldna væru enn að glíma við eft­ir­mála hruns­ins þar sem „al­menn­ing­ur var skil­inn eft­ir ber­skjaldaður í klóm fjár­mála­fyr­ir­tækja.“ Sagði hann marga lands­menn enn í sár­um og eng­ar raun­veru­leg­ar lausn­ir komn­ar.

Ragnar Þór Ingólfsson, verðandi formaður VR.
Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, verðandi formaður VR.

Ein­fald­ara, minna og hefðbundn­ara kerfi

Katrín tók næst til máls og sagði Íslend­inga ofboðslega fasta í upp­gjör­inu og „því sem var“ og að á meðan hafi orðið til nýtt fjár­mála­kerfi sem er að henn­ar sögn að miklu leyti ein­fald­ara, miklu minna og hefðbundn­ara.

Ítrekaði hún að fjár­mála­kerfið sam­an­stæði ekki aðeins af bönk­um held­ur af lán­veit­end­um á breiðum grunni. „Fjár­mála­kerfið er hérna til að starfa með fyr­ir­tækj­um og fólki, fyr­ir­tækj­um að stækka og fólki að koma sér þaki fyr­ir höfuðið og sinna sínu dag­legu lífi. En það þarf að eiga sér þetta sam­tal og traustið er lyk­ill. Ef það er ekki til staðar verður grunn­ur­inn aldrei sterk­ur.“

Ragn­ar tók þá til máls og sagði að sem dæmi um skort á trausti væri hið óskýra eign­ar­hald í kring­um söl­una á hlut­an­um í Ari­on banka. „Í fyrstu frétt­um um söl­una kom fram að hér væru komn­ir traust­ir fjár­fest­ar og al­vöru fjár­fest­ar. Síðan kem­ur í ljós að vog­un­ar­sjóðirn­ir voru að kaupa af sjálf­um sér og með tengsl við Caym­an-eyj­ar,“ sagði Ragn­ar og bætti við að það þyrfti raun­veru­leg­ar lausn­ir fyr­ir fólk til þess að sniðganga þetta kerfi.

Þá benti Katrín á að 2/​3 banka­kerf­is­ins væru enn í eigu rík­is­ins og lagði áherslu á að ræða mál­in út frá reglu­verk­inu og sagði það mun heilla­væn­legra. Sagði hún skipta máli að skoða það en benti á að upp á síðkastið hafi orðið mikl­ar breyt­ing­ar og því ekki skrýtið að menn hafi ekki náð að fylgj­ast með. „Þetta er svo mikið magn af regl­um en mjög margt þarna sem ver okk­ur. Við verðum á ein­hverj­um tíma­punkti að ákveða að treysta reglu­verk­inu.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert