Einungis tæp 8% Íslendinga á aldrinum 18-75 ára telja að hryðjuverk verði framin á Íslandi en 76-77% telja það ólíklegt. Þetta kemur fram í könnun Maskínu um hryðjuverkaógn á Íslandi en könnunin var framkvæmd áður en hryðjuverkin voru framin í London í síðustu viku.
Þeir yngstu og elstu telja líklegra að hryðjuverk verði framin en þeir sem eru „miðaldra“. Með auknum tekjum og lengri skólagöngu telur fólk ólíklegra að hryðjuverk verði framin hér á landi. Einnig kemur fram að hér finnst ekki munur á mati kjósenda flokkanna á hryðjuverkaógninni.
Meirihluti landsmanna, 76-77%, hugsar sjaldan eða aldrei um að hryðjuverk verði framin á Íslandi en einungis 4% hugsa oft um það. Konur hugsa örlítið oftar um hryðjuverk en karlar. Einnig hugsa kjósendur Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins oftar um að hryðjuverk verði framin á Íslandi en kjósendur annarra flokka.
Skoðanakönnun Maskínu var gerð dagana 10. til 22. mars 2017 og náði til 877 einstaklinga á aldrinum 18-75 ára á landinu öllu.