Orðið fóstureyðing „gildishlaðið og hreinlega rangt“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fóstureyðing er gildishlaðið, felur í sér fordóma og er í flestum tilfellum hreinlega rangt,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag en hann var var einn þeirra þingmanna sem kvaddi sér hljóðs í sérstakri umræðu um þungunarrof og kynfrelsi kvenna á Alþingi í dag.

Voru þeir þingmenn sem kvöddu sér hljóðs, auk heilbrigðisráðherra, sammála um það að sjálfsákvörðunarréttur kvenna skuli vera öðru yfirsterkari þegar kemur að kynfrelsi og fóstureyðingum. 

Lögin nær óbreytt í yfir 40 ár

Málshefjandi var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, en umræðurnar snerust að mestu um niðurstöður skýrslu starfshóps sem vann að heildarendurskoðun laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf, barneignir, fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.  

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður. mbl.is/Golli

Skýrslan var kynnt heilbrigðisráðherra í síðasta mánuði en meðal þess sem skýrsluhöfundar leggja til er að orðinu „fóstureyðing“ verði skipt út fyrir orðið „þungunarrof“ og að sá tímarammi sem heimilt verði að rjúfa þungun verði lengdur upp í 22 vikur meðgöngu.

Tillögurnar sem kynntar eru í skýrslunni snúa í fyrsta lagi að fræðslu og ráðgjöf um kynheilbrigði, í öðru lagi um þungunarrof og í þriðja lagi um ófrjósemisaðgerðir. Lagt er til í skýrslunni að núverandi löggjöf verði skipt upp í þrjá sjálfstæða lagabálka er snúa að fyrrnefndum þáttum.

Voru allir þeir þingmenn sem kvöddu sér hljóðs sammála um að nauðsynlegt sé að endurskoða lögin sem eru frá árinu 1975 og hefur þeim lítið sem ekkert verið breytt síðan.

Fötluðum einstaklingum mismunað í lögum

Þórhildur Sunna tók undir með skýrsluhöfundum og sagði augljóst að endurskoða þurfi löggjöfina. Innti hún þá ráðherra eftir svörum við því hver afstaða ráðherra væri til niðurstöðu skýrslunnar, hvort hann væri sammála eða ósammála og hvort hann hygðist leggja til afnám ákveðinna ákvæða laga hvað varðar ákvörðunarrétt kvenna til þungunarrofs og yfirráð fatlaðs fólks yfir eigin líkama og upplýst samþykki um þungunarrof og ófrjósemisaðgerðir. Í núgildandi lögum frá 1975 sé þessum einstaklingum mismunað hvað þetta varðar.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Óttarr svaraði því til að nauðsynlegt sé að gera breytingar á lögum til að tryggja rétt hvers einstaklings yfir eigin líkama og ákvörðun um fóstureyðingar. Aðgangur að öruggum fóstureyðingum yrði að vera greiðari og að þjóðfélagslegar breytingar hafi orðið undanfarna fjóra áratugi síðan lögin tóku gildi og gefi það sterkt tilefni til að bæta um betur. Kvaðst hann í megindráttum sama sinnis og það sem fram kemur í skýrslunni og kvaðst hann stefna að því að leggja fram frumvarp að nýjum lögum á vorþingi 2018.  

Sjálfsákvörðunarréttur yfir eigin líkama grundvallaratriði

Þá sagði hann mikilvægt að sú vinna sem fram undan er verði helst í samráði við almenning allan, en alveg sértaklega þann helming landsmanna sem eru konur. Eins styður hann þá tillögu nefndarinnar að aldurstakmark vegna ófrjósemisaðgerða verði lækkað úr 25 árum í 18, til samræmis við sjálfræðisaldur í öðrum lögum.

„Sjálfsákvörðunarréttur konu yfir eigin líkama er grundvallaratriði og þar á meðal hvort og þá hvenær kona eignast börn. Þannig er það ekki í núverandi löggjöf og því þarf að breyta,“ sagði Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, og fagnar hún umræðunni. Undir þau orð tóku raunar allir þeir þingmenn sem stigu í pontu en þeir komu úr öllum flokkum þingsins.

„Gagnvirk kynfræðsla“ hljómar spennandi

Hildur Sverrisdóttir.
Hildur Sverrisdóttir. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði fordóma til fóstureyðinga og kynfrelsis kvenna hafa í gegnum tíðina látið á sér kræla og þar hafi forræðishyggjan víða komið fram. Af því hafi hún sjálf reynslu síðan hún tók saman kynferðislegar fantasíur kvenna fyrir nokkrum árum, það hafi mætt fordómum.

„Það er fagnaðarefni að rætt er um kynfrelsi á hispurslausan og fordómalausan hátt,“ sagði Hildur og fagnar hún því jafnframt að lagt sé upp með betri og fjölbreyttari kynfræðslu í skólum landsins en í skýrslunni er meðal annars talað um gagnvirka kynfræðslu. „Ég veit ekki hvað það þýðir en það hljómar mjög spennandi,“ sagði Hildur.

Úrelt og úr sér gengin hegningarlög

Aðrir þingmenn sem kvöddu sér hljóðs um málið voru þau Eygló Harðardóttir, Nichole Leigh Mosty, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson og Ásta Guðrún Helgadóttir. Auk þess að taka undir með kollegum sínum þvert á flokka varðandi efni skýrslunnar vakti Ásta Guðrún jafnframt athygli á vandkvæðum hegningarlaga þar sem enn sé að finna úrelt og úr sér gengin ákvæði sem heimili refsingu kvenna sem „deyði fóstur sitt“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka