Orðið fóstureyðing „gildishlaðið og hreinlega rangt“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fóst­ur­eyðing er gild­is­hlaðið, fel­ur í sér for­dóma og er í flest­um til­fell­um hrein­lega rangt,“ sagði Logi Ein­ars­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, á Alþingi í dag en hann var var einn þeirra þing­manna sem kvaddi sér hljóðs í sér­stakri umræðu um þung­un­ar­rof og kyn­frelsi kvenna á Alþingi í dag.

Voru þeir þing­menn sem kvöddu sér hljóðs, auk heil­brigðisráðherra, sam­mála um það að sjálfs­ákvörðun­ar­rétt­ur kvenna skuli vera öðru yf­ir­sterk­ari þegar kem­ur að kyn­frelsi og fóst­ur­eyðing­um. 

Lög­in nær óbreytt í yfir 40 ár

Máls­hefj­andi var Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir, þingmaður Pírata, en umræðurn­ar sner­ust að mestu um niður­stöður skýrslu starfs­hóps sem vann að heild­ar­end­ur­skoðun laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kyn­líf, barneign­ir, fóst­ur­eyðing­ar og ófrjó­sem­isaðgerðir.  

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður.
Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir þingmaður. mbl.is/​Golli

Skýrsl­an var kynnt heil­brigðisráðherra í síðasta mánuði en meðal þess sem skýrslu­höf­und­ar leggja til er að orðinu „fóst­ur­eyðing“ verði skipt út fyr­ir orðið „þung­un­ar­rof“ og að sá tím­arammi sem heim­ilt verði að rjúfa þung­un verði lengd­ur upp í 22 vik­ur meðgöngu.

Til­lög­urn­ar sem kynnt­ar eru í skýrsl­unni snúa í fyrsta lagi að fræðslu og ráðgjöf um kyn­heil­brigði, í öðru lagi um þung­un­ar­rof og í þriðja lagi um ófrjó­sem­isaðgerðir. Lagt er til í skýrsl­unni að nú­ver­andi lög­gjöf verði skipt upp í þrjá sjálf­stæða laga­bálka er snúa að fyrr­nefnd­um þátt­um.

Voru all­ir þeir þing­menn sem kvöddu sér hljóðs sam­mála um að nauðsyn­legt sé að end­ur­skoða lög­in sem eru frá ár­inu 1975 og hef­ur þeim lítið sem ekk­ert verið breytt síðan.

Fötluðum ein­stak­ling­um mis­munað í lög­um

Þór­hild­ur Sunna tók und­ir með skýrslu­höf­und­um og sagði aug­ljóst að end­ur­skoða þurfi lög­gjöf­ina. Innti hún þá ráðherra eft­ir svör­um við því hver afstaða ráðherra væri til niður­stöðu skýrsl­unn­ar, hvort hann væri sam­mála eða ósam­mála og hvort hann hygðist leggja til af­nám ákveðinna ákvæða laga hvað varðar ákvörðun­ar­rétt kvenna til þung­un­ar­rofs og yf­ir­ráð fatlaðs fólks yfir eig­in lík­ama og upp­lýst samþykki um þung­un­ar­rof og ófrjó­sem­isaðgerðir. Í nú­gild­andi lög­um frá 1975 sé þess­um ein­stak­ling­um mis­munað hvað þetta varðar.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Ótt­arr Proppé heil­brigðisráðherra. mbl.is/​Styrm­ir Kári

Ótt­arr svaraði því til að nauðsyn­legt sé að gera breyt­ing­ar á lög­um til að tryggja rétt hvers ein­stak­lings yfir eig­in lík­ama og ákvörðun um fóst­ur­eyðing­ar. Aðgang­ur að ör­ugg­um fóst­ur­eyðing­um yrði að vera greiðari og að þjóðfé­lags­leg­ar breyt­ing­ar hafi orðið und­an­farna fjóra ára­tugi síðan lög­in tóku gildi og gefi það sterkt til­efni til að bæta um bet­ur. Kvaðst hann í meg­in­drátt­um sama sinn­is og það sem fram kem­ur í skýrsl­unni og kvaðst hann stefna að því að leggja fram frum­varp að nýj­um lög­um á vorþingi 2018.  

Sjálfs­ákvörðun­ar­rétt­ur yfir eig­in lík­ama grund­vall­ar­atriði

Þá sagði hann mik­il­vægt að sú vinna sem fram und­an er verði helst í sam­ráði við al­menn­ing all­an, en al­veg sér­tak­lega þann helm­ing lands­manna sem eru kon­ur. Eins styður hann þá til­lögu nefnd­ar­inn­ar að ald­urstak­mark vegna ófrjó­sem­isaðgerða verði lækkað úr 25 árum í 18, til sam­ræm­is við sjálfræðis­ald­ur í öðrum lög­um.

„Sjálfs­ákvörðun­ar­rétt­ur konu yfir eig­in lík­ama er grund­vall­ar­atriði og þar á meðal hvort og þá hvenær kona eign­ast börn. Þannig er það ekki í nú­ver­andi lög­gjöf og því þarf að breyta,“ sagði Stein­unn Þóra Árna­dótt­ir, þingmaður VG, og fagn­ar hún umræðunni. Und­ir þau orð tóku raun­ar all­ir þeir þing­menn sem stigu í pontu en þeir komu úr öll­um flokk­um þings­ins.

„Gagn­virk kyn­fræðsla“ hljóm­ar spenn­andi

Hildur Sverrisdóttir.
Hild­ur Sverr­is­dótt­ir. mbl.is/​Sig­ur­geir Sig­urðsson

Hild­ur Sverr­is­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði for­dóma til fóst­ur­eyðinga og kyn­frels­is kvenna hafa í gegn­um tíðina látið á sér kræla og þar hafi for­ræðis­hyggj­an víða komið fram. Af því hafi hún sjálf reynslu síðan hún tók sam­an kyn­ferðis­leg­ar fant­así­ur kvenna fyr­ir nokkr­um árum, það hafi mætt for­dóm­um.

„Það er fagnaðarefni að rætt er um kyn­frelsi á hisp­urs­laus­an og for­dóma­laus­an hátt,“ sagði Hild­ur og fagn­ar hún því jafn­framt að lagt sé upp með betri og fjöl­breytt­ari kyn­fræðslu í skól­um lands­ins en í skýrsl­unni er meðal ann­ars talað um gagn­virka kyn­fræðslu. „Ég veit ekki hvað það þýðir en það hljóm­ar mjög spenn­andi,“ sagði Hild­ur.

Úrelt og úr sér geng­in hegn­ing­ar­lög

Aðrir þing­menn sem kvöddu sér hljóðs um málið voru þau Eygló Harðardótt­ir, Nichole Leigh Mosty, Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir, Jón Stein­dór Valdi­mars­son og Ásta Guðrún Helga­dótt­ir. Auk þess að taka und­ir með koll­eg­um sín­um þvert á flokka varðandi efni skýrsl­unn­ar vakti Ásta Guðrún jafn­framt at­hygli á vand­kvæðum hegn­ing­ar­laga þar sem enn sé að finna úr­elt og úr sér geng­in ákvæði sem heim­ili refs­ingu kvenna sem „deyði fóst­ur sitt“.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert