Karlar greiða 33% minna

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þetta er rosalega sláandi. Mér er alveg sama þó að skýringin sé sú að einhverjar tegundir kvennagreina, hvort sem kvensjúkdómalækningar séu eitthvað flóknari eða hvað, þá á bara tryggingakerfið okkar að taka tillit til þess en ekki að demba þessum kostnaði yfir á konurnar.“ Þetta segir Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag vakti hún athygli heilbrigðisráðherra á því að svo virðist sem svokallaður bleikur skattur kunni að leynast í heilbrigðiskerfinu. „Mér finnst ótækt ef hann er að smjúga inn í heilbrigðisþjónustuna okkar,“ segir Hanna Katrín.

Athygli hennar hafði verið vakin á því að greiðsluþátttaka sjúklinga við komu til sérfræðilækna væri hærri þegar um væri að ræða greinar þar sem konur eru í meirihluta skjólstæðingar.

Karlar „ódýrari gerð“ af homo sapiens?

Grennslaðist hún þá fyrir um tölur og komst að því að greiðsluþátttaka skjólstæðinga, hjá þeim sérfræðilæknum þar sem þar sem ekki var marktækur munur milli kynja, var um 11,5% yfir meðaltali. Í greinum þar sem konur leita í meirihluta þjónustu er greiðsluþátttakan 10% yfir meðaltali en aftur á móti var greiðsluþátttaka 33% undir meðaltali hjá þeim sérfræðilæknum sem karlar þurfa í meirihluta að leita til.  

„Ég ætla í sjálfu sér ekkert að standa hér og mótmæla því ef lesa má milli línanna að karlar séu almennt einfaldari og ódýrari gerð af homo sapiens en konur. En mig langar að spyrja hæstvirtan heilbrigðisráðherra hvort ekki sé ástæða til að fara betur ofan í saumana á þessum málum, kyngreina komugjöld til sérfræðinga,“ sagði Hanna Katrín á Alþingi í dag og uppskar léttan hlátur í þingsal.

Hún kveðst ánægð með viðbrögð ráðherra við fyrirspurninni en hann hafi ekki verið meðvitaður um þessar tölur. „Ég heyrði bara á honum að þetta væri eitthvað sem hann hafi ekki ætlað sér að standa fyrir og hann ætlaði að skoða þetta nánar,“ segir Hanna Katrín við mbl.is. „Hann hefur aðgang að þessum gögnum og hans fólk og ég vona bara að þau skoði þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert