Kaup þýska bankans sögð til „málamynda“

Kaup þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á 45,8% …
Kaup þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum voru aðeins til málamynda samkvæmt Fréttablaðinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Aðeins var um „málamyndaþátttöku“ að ræða varðandi kaup þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Í frétt blaðsins er vitnað í bréf rannsóknarnefndar Alþingis, sem blaðið hefur undir höndum. Þar segir að í gögnum sem nefndin hafi aflað sér komi fram, að kaupin hafi verið fjármögnuð í gegnum aflandsfélag á vegum Kaupþings, sem nokkru síðar sameinaðist Búnaðarbankanum.

Bréfið sem vitnað er til í fréttinni, er sagt dagsett 13. mars sl., og á þar að koma fram að Hauck & Aufhäuser hafi verið „tryggt skaðleysi af þátttöku sinni í þessum viðskiptum."

Eru gögn og upplýsingar sem rannsóknarnefndin hefur undir höndum sögð sýna að „dagana áður en skrifað var undir kaupsamning Eglu hf. og annarra lögaðila (það er hins svonefnda S-hóps) um kaup á hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum hf. 16. janúar 2003, stóð hópur manna að gerð tveggja samninga varðandi hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. á milli annars vegar Hauck & Aufhäuser og hins vegar aflandsfélagsins Welling & Partners Limited, skráðu á Bresku-Jómfrúareyjum, sem Kaupþing hf. útvegaði til að standa að samningnum.“

Neitar blekkingum gegn ríkinu

Nokkrir starfsmenn Kaupþings á Íslandi og í Lúxemborg eru sagðir hafa staðið að samningnum.

Í fréttinni er einnig vitnað í svarbréf Ólafs Ólafssonar, sem var forsvarsmaður S-hópsins, til rannsóknarnefndar þingsins. Er Ólafur sagður neita því að blekkingum hafi verið beitt gagnvart ríkinu. Þá er Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, sagður hafa svarað nefndinni því til, að hann muni ekki eftir aflandsfélaginu Welling & Partners, enda séu liðin 14 ár frá viðskiptunum.

Segir Fréttablaðið rannsóknarnefnd þingsins ætla birta skýrslu sína síðar í þessari viku. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert