„Þær koma mér ekki mikið á óvart. Þetta er svona nokkurn veginn eins og ég hélt þó að ég hafi ekki vitað smáatriðin,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is en hann gagnrýndi á sínum tíma aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum svonefnds S-hóps á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003.
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að kaupin hafi aðeins verið til málamynda og vitnaði þar í bréf rannsóknarnefndar Alþingis sem blaðið hefur undir höndum. Þar segði að í gögnum sem nefndin hefði aflað sér kæmi fram að kaupin hafi verið fjármögnuð í gegnum aflandsfélag á vegum Kaupþings sem nokkru síðar hafi sameinast Búnaðarbankanum.
Frétt mbl.is: Kaup þýska bankans sögð „til málamynda“
Vilhjálmur sagði í viðtali við Morgunblaðið í júní 2005 að það væri alveg ljóst að Hauck & Aufhäuser hefði aldrei átt hlut í Búnaðarbankanum líkt og haldið hefði verið fram enda kæmi það ekki fram í ársreikningum hans. Þess í stað hefði S-hópurinn fengið lán hjá þýska bankanum til þess að fjármagna kaupin og veðsett um leið bréf í Búnaðarbankanum.
Sagði hann við Morgunblaðið að fyrri eigendur Búnaðarbankans, íslenska þjóðin, hefðu verið blekktir með því að láta líta út fyrir að Hauck & Aufhäuser hefði tekið þátt í kaupunum. Enn fremur sagði hann að frá upphafi hefði verið ljóst að S-hópurinn hefði ekki átt fyrir Búnaðarbankanum og því orðið að útvega fé með öðrum hætti.
„Auðvitað bjuggu menn til einhverja fléttu og felufléttu og teygðu hana þarna á kunnuglegar slóðir í Karabíska hafinu. Kaupþing er náttúrulega aðili að þessu allan tímann og félagið er þá væntanlega óstarfhæft samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki allar götur frá árinu 2003,“ segir Vilhjálmur. Kaupþing hafi því verið „tifandi tímasprengja“ frá þeim degi.
Þessi viðskipti hafi veikt Búnaðarbankann og síðan Kaupþing banka sem varð til við sameiningu Búnaðarbankans við verðbréfafyrirtækið Kaupþing. Spurður hvort hann telji að þetta hafi átt þátt í því hvernig síðan fór fyrir Kaupþingi banka í bankahruninu 2008 segir Vilhjálmur: „Veikleiki bankans var nokkur og hann var tifandi tímasprengja.“
Vilhjálmur tekur þó fram að hann hafi ekki lesið skýrslu rannsóknarnefndarinnar heldur aðeins séð fréttir af málinu. Fundað verður um skýrsluna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á miðvikudaginn en Vilhjálmur segir enga þingmenn hafa enn séð hana.