Ísland hafnaði í öðru sæti yfir þau Evrópulönd sem lesendur breska blaðsins The Telegraph njóta helst að sækja heim. 75.000 lesendur tóku þátt í því að velja uppáhaldslandið sitt á síðasta ári.
„Þetta er góð frammistaða miðað við land sem fyrir stuttu var varla á „ferðakortinu,““ segir meðal annars í umfjöllun um Ísland.
Enn fremur kemur þar fram að núna hafi fleiri efni á því að ferðast til Íslands og stórkostlegt landslag hafi augljóslega mikil áhrif á lesendur, sama hvað segja megi um veðurfarið. „Norðurljósin laða einnig marga að sér á veturna.“
Ítalía er vinsælasti áfangastaður þeirra sem tóku þátt í því að velja uppáhaldslandið sitt og Grikkland hafnaði í þriðja sæti.