Skipulagsstofnun telur að allir þeir fimm kostir sem lagðir hafi verið fram vegna lagningar Vestfjarðavegar á milli Bjarkalundar og Skálaness um Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð hafi neikvæð áhrif á náttúruminjar sem njóti verndar samkvæmt lögum. Þetta kemur fram í álitsgerð stofnunarinnar sem skilað hefur verið til Vegagerðarinnar. Leggur stofnunin til að ekki verði farin sú leið að leggja veg um Teigsskóg eins og Vegagerðin hafði lagt til.
Skipulagsstofnun telur að leið D2, sem fylgir núverandi vegi frá Bjarkalundi að Þorskafirði, þverar Þorskafjörð rétt utan við Mjólkárlínu, liggur í jarðgöngum undir Hjallaháls og um botn Djúpafjarðar, fer þaðan í nýju vegstæði yfir Ódrjúgsháls og þverar Gufufjörð skammt utan Hofstaða að Skálanesi, uppfylli best markmið laga um mat á umhverfisáhrifum um að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmda.
Bent er á að á því landsvæði sem framkvæmdin sé fyrirhuguð gildi margvísleg verndarákvæði sem taki að einhverju marki til allra þeirra fimm veglína sem kynntir eru í matsskýrslu Vegagerðarinnar. Þar á meðal votlendi, leirur og sjávarfitjar ásamt sérstæðum eða vistfræðilega mikilvægum birkiskógum sem njóti verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Þá sé hluti áformaðs framkvæmdasvæðis innan svæðis á náttúruminjaskrá.
„Einnig er nokkur fjöldi fornleifa sem njóta verndar samkvæmt lögum um menningarminjar á eða nærri framkvæmdasvæði allra veglína. Jafnframt er arnarvarp og æðarvarp nærri framkvæmdasvæðinu sem nýtur verndar samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þá eru búsvæði fleiri verndaðra fugla- og gróðurtegunda á áhrifasvæði framkvæmdarinnar. Einnig er sérstök áhersla á verndun landslags í lögum um náttúruvernd og í lögum um vernd Breiðafjarðar,“ segir enn fremur.
Stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að út frá þekktum áhrifum á birkiskóglendi, votlendi, leirur og sjávarfitjar, tegundir sem njóta verndar, menningarminjar og landslag séu leiðir A1, I og Þ-H að öllu samanlögðu líklegar til að hafa í för með sér talsverð til veruleg neikvæð umhverfisáhrif sem ekki sé hægt nema að takmörkuðu leyti að fyrirbyggja eða draga úr með mótvægisaðgerðum. Þá telur stofnunin að óvissa sé um áhrif þverana fjarðanna á eðlisþætti sjávar og lífríki fjöru og grunnsævis sem ekki verði eytt nema með frekari rannsóknum.