Þegar upp kemur sú staða að þurfa að fara til tannlæknis frestar fimmti hver fullorðinn Íslendingur því eða hættir við að fara.
Þetta er algengast meðal fólks í lægsta tekjuhópnum og þeirra sem eru með líkamlega fötlun. Einnig er algengt að ungt fólk og einhleypir fari ekki til tannlæknis eða fresti því þar til betur stendur á.
Þetta kemur fram í rannsókninni Heilbrigði og lífskjör Íslendinga sem gerð var af Rúnari Vilhjálmssyni, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild HÍ, og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag. Rannsóknin var gerð fyrir rúmu ári en hefur ekki verið birt opinberlega.