Hvernig ætlum við að hafa heiminn?

Sigríður Þorgeirsdóttir hlakkar mikið til að hlusta á erindi kvennanna …
Sigríður Þorgeirsdóttir hlakkar mikið til að hlusta á erindi kvennanna á málþinginu á morgun. mbl.is/Golli

Hvers vegna er þessi gremja og pirringur milli kynjanna? Hvað er það í stórum samfélagskerfum og hvað er það í hugmyndum okkar um okkur sjálf sem elur á þessu? Nokkrir heimspekingar eru staddir hér á landi í tilefni af alþjóðlegri heimspekiráðstefnu þar sem fjallað verður um femínískar útópíur. Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekiprófessor segir femíníska heimspeki vera róttækt endurnýjunarafl.

Í femínískri heimspeki segir hið femíníska miklu meira en það að vera bara femínísk gagnrýni. Femínísk heimspeki auðgar mannskilning heimspekinnar. Femíníska heimspekin er róttækt endurnýjunarafl af því hún sýnir fram á að grunnhugtök í vísindum ganga oft út frá einhverjum almennum hugmyndum sem taka ekki mið af margbreytileika mannlegs lífs,“ segir Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekiprófessor þegar hún er spurð að því hvað femínísk heimspeki sé, en á morgun, fimmtudag, verður málþing í Háskóla Íslands þar sem femínískir heimspekingar flytja erindi.
Kristie Dotson er ein örfárra hörundsdökkra kvenna í stétt heimspekinga …
Kristie Dotson er ein örfárra hörundsdökkra kvenna í stétt heimspekinga í Bandaríkjunum, sem segir heilmikið um raunveruleikann.


Til að útskýra þetta betur segir Sigríður að heimspekin sé oft grunnur fyrir önnur vísindi, vegna þess að grundvallarhugtök í vísindum, eins og til dæmis maður, líf, dauði og samfélag, séu heimspekileg í sjálfu sér.

Innprentað að það sé ókarlmannlegt að tjá tilfinningar

„Ef við hugsum t.d. um hugtakið „maður“ þá hefur þetta hugtak lengst af verið skilið á mjög karllægan hátt innan fræðanna. Í félagsvísindum þá var „borgarinn“ iðulega skilgreindur út frá viðteknum hugmyndum um karlinn. Í guðfræðinni var guðinn lengst af hugsaður sem karl, og í sagnfræðinni hefur sagan lengst af verið skrifuð um karla, af því þeir voru „maðurinn“ sem sagan fjallar um. Þegar við veltum fyrir okkur þekkingarverunni eða siðaverunni í heimspekinni, þá höfum við alltaf ákveðnar hugmyndir um karla fyrir augunum. Oft eru þetta hugmyndir sem gera körlum einnig erfitt fyrir eins og til dæmis að innprenta þeim að það sé ókarlmannlegt að tjá tilfinningar.


Hugmyndir okkar um kynin, fleiri kyn og margbreytileika þeirra eru að losa okkur úr alls konar svoleiðis viðjum, eins og Willow Verkerk mun fjalla um í sínu erindi. Sama er að segja um hugtök um náttúru, þau eru mjög málum blandin, annars vegar tölum við um náttúruna eins og um konu sem þarf að stjórna og hálfpartinn misnota, en hinsvegar sundurgreinum við hana sem eitthvað algerlega utan við okkur, eins og við mannfólkið séum ekki hluti af náttúrunni.

Willow Verkerk
Willow Verkerk


Við þurfum að endurmeta svona hugtök til þess að skilja hvar við stöndum í heiminum og gagnvart okkur sjálfum.“

Getum við elskað og virt á nýjum forsendum?

„Við erum að pæla í femínískum útópíum á þessu málþingi, en útópíur eru ímyndaðir betri heimar. En stundum byggjast útópíur á óttalegum alræðishugmyndum, og mann langar oft ekkert að búa í útópíu. Heimspekileg hugsun er hins vegar alltaf útópísk að því leyti að hún sér einhverja annmarka á ríkjandi aðstæðum og hugsar út frá því einhverja aðra eða betri möguleika. Við erum að sýna fram á hvernig slík hugsun er örvandi fyrir heimpekilega hugsun samtímans.


Þegar maður skoðar femínískar útópíur á tuttugustu öld, þá eru þær iðulega þess eðlis að kynin eru búin að gefast upp á hvort öðru og eru skilin að skiptum. Saga kvenfyrirlitningar og karlgöfgunar er svo löng, sem er vont fyrir bæði kynin, að það hefur í raun stíað kynjunum í sundur. Eftir alla þessa sögu, þá er spurningin hvort kynin geti virt og elskað hvort annað. Er það yfirhöfuð hægt að þeim takist það að elska og virða hvort annað á nýjum forsendum? Hvers vegna er þessi gremja og pirringur milli kynjanna? Hvað er það í stórum samfélagskerfum og hvað er það í hugmyndum okkar um okkur sjálf sem elur á þessu?“

Sigríður segir að í femínískum útópíum sé ekki bara verið að hugsa um kynin og einstaklingana, heldur birti þær hugmyndir um það hvernig heimurinn geti þróast og hvernig við ætlum að hafa heiminn.

Alison Jaggar
Alison Jaggar


„Breytingarnar eru svo miklar núna á öllum sviðum, til dæmis í tengslum við vinnu; störf munu verða miklu færri og þá þurfum við að breyta viðhorfum okkar til vinnunnar, spyrja okkur upp á nýtt hvað sé framlag til samfélagsins og fleira í þeim dúr.“

Mikilvægt að hugsa um stóru myndina

Sigríður segir að bandarísku heimspekingarnir sem tali á þinginu, þær Kristie Dotson og Nancy Bauer, hafi fjallað talsvert um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum út frá kyni og kynþætti. Kristie Dotson er sjálf einn örfárra blökkumanna í hópi bandarískra heimspekinga og það segir mikið um það hversu hvít þessi grein er miðað við flestar aðrar fræðigreinar.

„Í forsetakosningunum í Bandaríkjunum kom svo vel í ljós hve umræða um kyn, kynþætti, þjóð og minnihlutahópa vó þungt. Það voru átök um frjálslyndari og íhaldssamari afstöðu til fóstureyðinga, innflytjenda, fjölmenningar og svo framvegis. Fyrir vikið hurfu stærri mál oft í skuggann, eins og fjármálakerfi sem gerir þá ríku ríkari og elur á misskiptingu. Þess vegna er líka mikilvægt að hugsa um stóru myndina og útópískar hugmyndir um framtíðina. Þær Alison Jaggar og Nancy Bauer munu til að mynda velta fyrir sér samspili heimspekilegra hugmynda um framtíðina og pólitískum veruleika samtímans.“

Nancy Bauer.
Nancy Bauer.

Málþingið er forsmekkur af þriggja daga alþjóðlegri ráðstefnu sem verður í Skálholti, en þar verða 60 erlendir gestir. Mun færri komast að en vildu á ráðstefnuna en íslensk og norræn femínísk heimspeki er farin að vekja athygli víða. Rannsóknahópurinn sem skipuleggur ráðstefnuna undir stjórn þeirra Sigríðar Þorgeirsdóttur og Eyju Margrétar Brynjarsdóttur stendur meðal annars að alþjóðlegum sumarskólum um nýjar aðferðir í kennslu heimspeki á grundvelli rannsókna í femínískri heimspeki. Öllum er velkomið að koma á málþingið.

Hugmyndir um framtíðina, samtímann og söguna

Á morgun, fimmtudag 30. mars, verður málstofa, sem er öllum opin, kl. 10-17 í Hátíðarsal Háskóla Íslands, en þar ætla fjórir heimspekingar að ræða hugmyndir um framtíð, samtíma og söguna. Yfirskift málþingsins er: Femínist Utopias: Transforming the Present of Philosophy. Historical and Contemporary Perspectives.

Í tilkynningu segir: Femínísk heimspeki hefur lagt fram öfluga gagnrýni á heimspekihefðina og afhjúpað hvernig kvenheimspekingar hafa verið strokaðir út og hve hugmyndir „stórra“ heimspekinga hafa viðhaldið kynjamismun með því að gera lítið úr „kvenlegum“ eiginleikum. Í kjölfar þessarar gagnrýni hefur femínísk heimspeki lagt til mannskilning sem virðir fjölbreytileika okkar, sér okkur sem samfélagsverur, leggur áherslu á að við þurfum á hvert öðru að halda og leyfir okkur öllum að vera „mannleg“.

Femínísk heimspeki er um þessar mundir að bylta vinnubrögðum í heimspeki og grunn-hugmyndum hennar. Femínískar útópíur nýtast til þess að hressa upp á heimspeki og sýna fram á að meginspurningar heimspeki fæðast af undrun yfir heiminum og frústrasjónum yfir ósanngjörnum aðstæðum. Útópíurnar þurfa ekki að vera „óraunsæjar“, heldur varpa ljósi á þörf fyrir aukinn sjálfsskilning sem og hvernig við getum skapað saman betri heim.

Þessar konur, sem eru heimspekingar, flytja erindi:
Alison Jaggar: Feminist Utopias: Transforming the Methodology of Political Philosophy.
Nancy Bauer: Philosophical Ideology and Real-World Power.
Kristie Dotson: On the Value of Challenging Philosophical Orthodoxy: A Tale of Two Careers.
Willow Verkerk: Reinterpreting Philosophy: Questioning Universality with Exemplarity and Difference.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka