Bæta þarf ímynd kennarastarfsins og starfið þarf að vera samkeppnishæft svo nýnemar skrái sig í kennaranám. Menntamálaráðherra hyggst meðal annars skoða veitingu leyfisbréfa til kennara með það fyrir augum að þeir geti kennt á fleiri skólastigum. Þetta kom meðal annars fram á ársfundi Kennarasambandsins í líflegum pallborðsumræðum um nýliðun kennarastéttarinnar.
Þegar kennaranám var lengt úr þremur árum í fimm, hefur mikil fækkun verið á skráðum nemendum við kennaradeildir skólanna. Skólarnir ná ekki að brautskrá nógu marga til að viðhalda eðlilegri nýliðun í stéttinni.
Í umræðunum var meðal annars lýst yfir áhyggjum af nýliðun í stéttinni en kennarastéttin er að eldast. Íslenska menntakerfið er ekki það eina sem stendur frami fyrir þessari stöðu því það sama er upp á teningnum hjá öðrum þjóðum í vesturhluta Evrópu, að sögn Þórðar Á. Hjaltested, formanns Kennarasambands Íslands. Í því samhengi benti hann á að það væri mikilvægt að kennarastarfið væri samkeppnishæft og að starfsumhverfið myndi ýta undir hvata til að vaxa í starfi.
Fyrir svörum sátu mennta- og menningarmálaráðherra, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla auk skólamálafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Kennaranámið í bæði leik- og grunnskólum er fimm ára langt en enn eru gefin út leyfisbréf fyrir kennara sem veitir þeim réttindi til að kenna eingöngu tilteknum aldri og á ákveðnu skólastigi. Til dæmis hefur leikskólakennari eingöngu réttindi til að kenna börnum til sex ára aldurs. Bent var á að þetta væri einkennilegt því kennari ætti að geta kennt hvaða aldri sem er hversu framarlega sem kennslan hæfði menntun og áhugasviði kennarans sjálfs.
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, sagðist ætla að skoða þessi skörpu skil sem eru í veitingum leyfisbréfa ráðuneytisins til kennara. Hann sagði jafnframt að það gæti ekki gengið að fimm ára kennaranám væri einskorðað við ákveðinn aldur.
Þetta er verkefni en ekki vandamál, var Kristjáni tíðrætt. „Ég kvíði því ekki að takast á við þetta verkefni. Menntunin og þekkingin sem við búum yfir býður upp á að við ráðum við þetta,“ sagði Kristján og sagði mikilvægt að drekkja sér ekki í áhyggjum af ástandinu. Til frekari útskýringar greip hann til myndmáls úr sjómennskunni sem hann þekkir af eigin raun. Hann sagði að ráðuneytið leysti þetta ekki eitt og sér heldur þyrfti öll áhöfnin að leggja sitt af mörkum til að sigla skipinu í land þó skipstjórinn stýrði vissulega ferðinni og bæri ábyrgð þá þyrftu allir að vera samtaka. Ábyrgðin væri allra.
Kristján vísaði til þess að aðrar starfsstéttir hefðu líka áhyggjur af nýliðun og vísaði til skorts á hjúkrunarfræðingum. Þessi staða væri breytileg milli ára og niðursveiflan kæmi líka alltaf eftir uppsveiflu með tilheyrandi breytingu á starfsvali.
Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, tók í sama streng og Kristján og sagði mikilvægt að hugsa í lausnum þegar laða ætti ungt fólk í kennaranám.
„Aðferðafræðin sem við erum að nota er ekki að virka. Við þurfum að fá aðila að borðinu sem geta tekið ákvörðun,“ sagði Svandís. Hún nefndi að hægt væri að hafa hvata í kerfinu til þess að stunda kennaranám. Til dæmis að ná samkomulagi við Lánasjóð íslenskra námsmanna um styrkjakerfi, endurgreiðslu eða fá afslætti með einhverjum hætti.
Markaðssetning á kennaranáminu var annað sem þyrfti að efla til að sýna ungu fólki í dag að það er bæði gefandi og skemmtilegt að vera kennari. „Við þurfum að tala öðruvísi um námið og kennarastarfið,“ sagði Svandís. Hún benti á öflugt verkefni kennaranemenda við Háskóla Íslands sem nefnist, Komdu að kenna.
Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla - landssamtaka foreldra, sagði einnig mikilvægt að draga fram jákvæðar hliðar kennarastarfsins og auka þyrfti virðingu fyrir kennurum í samfélaginu. „Við þurfum að taka brotin og púsla þeim saman til að finna út hvað fær fólk til að fara í kennaranám. Á sama tíma þarf að bæta starfskjör kennara svo þeir fái tækifæri til að vaxa í starfi,“ segir Hrefna. Hún benti á að 15 ár væri stuttur tími en að þeim árum liðnum láta margir kennarar af störfum og of fáir kennarar taka við keflinu.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavíkur, tók heilshugar undir mikilvægi þess að draga fram það jákvæða í starfinu. Hann benti á að vandamálið sem hann vildi ávarpa væri einmitt hversu neikvæð ímynd væri af starfi kennarans og það væri ekki síst undir kennurum sjálfum komið. „Mér finnst staðan einkennast af neikvæðum spíral sem við erum stödd í. Það er mjög margt í umhverfi kennara og skólastarfi sem einkennist af átökum og vantrausti,“ sagði Dagur.
Hann vísaði meðal annars í samtöl sín við unga kennara í vetur sem hefðu sagt að þeim líkaði kennarastarfið mjög vel, krakkarnir væru góðir og samskipti við foreldrar krefjandi en neikvæðnin innan skólans væri að drepa þá . „Ef einhver jákvæður stígur fram og bendir á það sem vel er gert þá koma tveir neikvæðir á móti. Það hefur verið gríðarlega þungt andrúmsloft og líka í garð okkar í borginni,“ sagði Dagur og bætti við: „Ég er ekki að horfa fram hjá vandamálunum heldur ávarpa það.“
Dagur sagði mikla togstreitu og átök innan kennarahópsins, bæði milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar, og skólakerfisins og ráðuneytisins. Í þessu samhengi vísaði hann til menntapólitíkurinnar, nánar tiltekið til Menntamálastofnunnar, sem hann sagði að myndi haga sér eins og boðvald í stað þess að starfað með kennurum. Slík framkoma vekti ekki traust. „Við erum föst í menntapólitík sem tíðkaðist fyrir meira en 15 árum,“ sagði hann. Hann vildi ítreka mikilvægi þess að ná að skapa traust.
Menntuðum leikskólakennurum fjölgaði þegar veittir voru styrkir til náms í leikskólakennarafræðum. Á þetta benti Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara og vildi sjá fleiri sambærilegar aðgerðir. Hann benti einnig á launamál og sagði brýnt að laun kennara þyrftu að vera samkeppnishæft við önnur störf í samfélaginu. Um þetta þyrfti að ríkja samstaða og þetta þyrfti að laga.
Fleiri leikskólakennarar tóku í sama streng og sögðu ástandið heilt yfir gott þó margt mætti bæta. Bent var á að menntuðum leikskólakennurum hefði fjölgað á Vopnafirði í sérstöku átaki sem farið var í með sveitarfélaginu. Önnur sveitarfélög mættu gera slíkt hið sama.
Þegar talið barst að nemendum í grunnskóla með sérþarfir og greiningar. Voru bæði Dagur og Kristján nokkuð sammála um að foreldrar leituðu gjarnan útskýringa til skólans til dæmis á því að ef barnið þeirra hefði dregist aftur úr í þroska miðað við aðra nemendur.
Á Íslandi eru um 16% nemenda í grunnskólum með greiningu og er hæsta hlutfall í löndum Evrópu. Þetta kom fram í skýrslu Evrópumiðstöðvar um menntun án aðgreiningar, um úttektar miðstöðvarinnar á framkvæmd á stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi og var kynnt nýverið. Í öðrum ríkjum er þetta hlutfall um 5 – 6%.
Á þetta benti Kristján og sagði: „Það er ekki hægt að gera nemendur að svona miklu heilbrigðisvandamáli.“
Samkvæmt umræddri skýrslu er nægt fjármagn í skólakerfinu, sérstaklega þegar litið er til annarra landa, og því þarf að nýta þessa fjármuni mun betur til að ná meiri árangri.