Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, segir lykilatriðið að Íslendingar læri af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um söluna á 45,8% hlut í Búnaðarbankanum árið 2003.
„Það var blekkingarleikur í gangi um eignarhald þegar kom að sölu ríkisins á eignum sínum í fjármálafyrirtæki,“ sagði Jón Þór að loknum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis vegna skýrslunnar.
„Nú er búið að selja Arion Banka. Þar er uppi á teningnum að slóð um eignarhald þeirra eigenda sem kaupa endar á Cayman-eyjum, alla vega tveggja þeirra. Nefndir þingsins geta kallað eftir að fá upplýsingar um þetta eignarhald sem fjármálaeftirlitið aflar,“ segir Jón Þór og tekur fram að landsmenn eigi rétt á að vita hverjir séu raunverulegir eigendur í fjármálafyrirtækjum landsins.
„Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd getur líka ef tilefni er til skoðað ákvarðanir og verklag ráðherra við þessa sölu og hefur heimildir í lögum um þingsköp til þess og hefur kallað eftir því. Ég gerði það á fundinum núna áðan og mun halda því til streitu,“ bætir hann við og á þar við söluna á 30% hlut ríkisins í Arion banka.