Öllum flugfarþegum sem áttu flug frá Leifsstöð í dag var vísað út um vopnaleitina í innritunarsal flugstöðvarinnar þar sem þeir bíða nú átekta. Þeir eru illa upplýstir um hversu lengi þeir þurfa að bíða áður en hleypt verður inn í flugstöðina að nýju en fram kom í fyrri frétt mbl.is af málinu að fyrir mannleg mistök hefðu farþegar í flugvél frá Grænlandi ekki farið í gegnum öryggisleit og blandast öðrum farþegum.
Samkvæmt verklagi í flugverndarreglum þarf að rýma flugstöðina þannig að allir farþegar fari í gegnum öryggisleit að nýju. Engin hætta er talin vera á ferð skv. upplýsingum frá ISAVIA.
Útvarpsmaðurinn Sigvaldi Þórður Kaldalóns, best þekktur sem Svali á K100, var kominn út í rútu sem ferjaði flugfarþega að flugvélinni á leið til Kanada þegar henni var snúið við vegna öryggisrofsins. „Öryggislúðrarnir fóru í gang og í kjölfarið var tilkynnt um að öryggisbrestur hefði orðið,“ segir Svali. „Starfsmaður sem hefur unnið þarna í níu ár sagðist aldrei hafa lent í þessu,“ bætir Svali við.
Hann segir að öryggisverðir hefðu verið um alla flugstöð þegar hann steig út úr rútunni, en öryggisvörður fylgdi Svala og öðrum farþegum á leið til Kanada úr flugstöðinni. Þegar mbl.is náði tali af Svala var hann kominn í innritunarsalinn, við rúllustigann sem ferjar farþega upp að vopnaleitinni. Svali áætlaði að farþegarnir skiptu þúsundum, troðið væri af fólki í allar áttir.