„Það er enginn vafi á því að afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir náttúru og þjóðlíf verða víðtækar. Það er mjög einföld fullyrðing sem er auðvelt að verja og þær eru nú þegar orðnar nokkrar,“ segir Halldór Björnsson, sérfræðingur og formaður vísindanefndar um Loftslagsbreytingar í samtali við mbl.is.
Halldór kynnti á ársfundi Veðurstofunnar nú í morgun hluta skýrslu nefndarinnar um hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi. Vonast er til að skýrslan, sem unnin er að beiðni Umhverfisráðuneytisins og sem hluti af sóknaráætlun í loftslagsmálum, verði tilbúin í haust.
Í erindi sínu fjallaði Halldór um loftslagssögu Íslands síðustu árhundruð og áratugi, auk þess að horfa til þróunarinnar næstu hundrað árin.
„Það er búið að vera að hlýna hér stöðugt í 200 ár, eða frá því að við byrjuðum að mæla. Þetta er mjög skrykkjótt hlýnun, en í heildina eru þetta 0,8 gráður á öld,“ segir hann. „Vissi maður ekki meira um málið, þá myndi maður mögulega telja að þetta væri náttúruleg sveifla. En af því að við vitum að jörðin er að hlýna og hvers vegna það gerist, þá vitum við líka að á Íslandi er hlýnunin sú sama og annars staðar í heiminum, þó að að sveiflurnar hér séu margfalt meiri.“
Máli sínu til skýringar nefnir Halldór að ef horft sé yfir nógu langt tímabil þá sjáist að þróunin á Íslandi sé í takt við hnattræna hlýnun, sem er um 0,8 gráður á öld.
„Hnattræn hlýnun er auðsæ og ummerki hlýnunar eru víðfem. Þrjú síðustu ár hafa verið þau hlýjustu frá upphafi,“ segir hann.
Halldór bætir við að spár hingað til hafi gengið nokkuð vel eftir. „Þannig að það er enginn ástæða til annars, en að telja að ef við höldum áfram að losa þá muni ekki lika halda áfram að hlýna. Það gildir líka fyrir Ísland, jafnvel þó að það verði áfram sveiflur milli ára.“
Halldór segir loftslagsspár vísindanefndarinnar fyrir næstu hundrað árin gera ráð fyrir allt að 4 gráðu hlýnun. „Heitasta sviðsmyndin miðar við að við höldum áfram að losa með sama hætti og áður. Sú sviðsmynd er svo langt út fyrir það sem fellur undir náttúrulegan breytileika, að það væri aldrei hægt flokka hana undir hefðbundnar sveiflur.“
Kaldasta sviðsmyndin sem miðast við að verulega verði dregið úr losun, gerir ráð fyrir 1,5 gráðu hlýnun. „Gangi þessi kaldasta sviðsmynd eftir, þá verður náttúrulega hlýrra, en það munu samt koma tímabil sem verða í ætt við köldustu tímabilin á síðustu öld,“ segir Halldór og nefnir hafísárin sem dæmi.
„Það má segja að vægasta sviðsmyndin sem er aðeins undir Parísarsamkomulaginu hvað losun varðar, sé eins og hlýi hlutinn af síðustu öld þar sem hitastig var ekki miklu hærra en það er nú.“
Halldór fjallaði ekki um afleiðingar hlýnunar í erindi sínu, en sagði í samtali við mbl.is að margt sé þó vitað um þær. „Jöklarannsóknir hafa til að mynda sýnt okkur að íslenskir jöklar eru að hopa mjög mikið og hafa gert nánast látlaust í 30 ár.“ Hann segir árið 2015 hafa verið áhugaverða undantekningu frá þessu, en 2016 hafi jöklarnir síðan aftur hagað sér líkt og fyrri ár.
„Sumir hlutir eru fyrirsjáanlegir vegna þess að staðbundnar aðstæður eru þannig að það má vera nokkuð ljóst hvað gerist,“ segir Halldór og rifjar upp þau orð Odds Sigurðssonar í viðtali við Morgunblaðið fyrir all löngu að Skeiðará myndi skipta um farveg innan tíu ára. „Það tók níu ár og sjö mánuði. Nú er það þannig að allt vatn frá Skeiðarárjökli rennur til sjávar um Gígjufljót, það nær ekki lengur að renna til sjávar um Skeiðará,“ segir hann.
Miklar breytingar hafi þannig orðið sem megi rekja beint til þess að jöklarnir séu að hopa. „Síðan er landið að rísa við suðurströndina, en sígur ýmist annars staðar eða stendur í stað, svo er einnig augljóst að landið hefur grænkað og allt eru þetta áhrif hlýnunar sem við erum að sjá í kringum okkur.
Það er heldur enginn vafi á því að þetta mun hafa mjög miklar breytingar og að afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir náttúru og þjóðlíf munu verða víðtækar.“