Guðni Th. í pallborðsumræðum með Pútín

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Ísland, varaði m.a. við hættunni sem …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Ísland, varaði m.a. við hættunni sem okkur stafaði nú af því að hafa notað úthöfin lengi vel sem ruslakistu.

Guðni Th. Jóhannsson, forseti Íslands tók í dag þátt í ráðstefnu um málefni heimskautaslóða í Arkhangelsk í Rússlandi. Guðni flutti  ræðu á ráðstefnunni The Arctic: Territory of Dialogue og sagði þar Norðurheimskautið leika mikilvægt hlutverk fyrir Ísland. Hann varaði einnig við hættunni sem okkur stafaði nú af því að hafa lengi notað úthöfin sem ruslakistu, sem og hættunni af losun plastagna í hafið.

Guðni kvaðst enn fremur lengi hafa dáðst að rússneskri sögu og heiðarleika og gestrisni þeirra Rússa sem hann hefði kynnst. Greip forsetinn því næst til rússneskunnar er hann vitnaði í rússneskt máltæki um að ekkert væri dýrmætara en sönn vinátta.

Forsetinn tók einnig þátt í  pallborðsumræðum með þeim Vladimír Pútín Rússlandsforseta og Sauli Niinistö, forseta Finnlands, en Geoff Cutmore, fréttamaður hjá CNBC sjónvarpsstöðinni sem stýrði umræðunum.

Guðlaugur Þór fundaði með Lavrov

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er einnig í Arkhangelsk  og átti hann í gærkvöldi fund með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ásamt utanríkisráðherrum Noregs og Danmerkur. Á fundi ráðherranna voru samskiptin við Rússland, samvinna á norðurslóðum, öryggismál og helstu álitamál á alþjóðavettvangi til umfjöllunar að því er segir í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Rædduráðherrarnir samstarf ríkjanna innan Norðurskautsráðsins, sem Ísland tekur við formennsku í árið 2019 og Eystrasaltsráðsins, sem Ísland leiðir nú, en stefnt er að ráðherrafundi þess í Reykjavík í sumar. 

Ýmis alþjóðamál voru einnig til umræðu á fundinum, meðal annars ástandið í Sýrlandi og Mið-Austurlöndum, svo og í Úkraínu og Tyrklandi. Hvöttu norrænu ráðherrarnir rússnesk stjórnvöld til þess að beita áhrifum sínum til að koma á varanlegu vopnahléi í austurhluta Úkraínu. 

„Okkur greinir víða á, meðal annars í málefnum Úkraínu og Sýrlands, og í mannréttindamálum. Engu að síður er mikilvægt að viðhalda samtali og freista þess að miðla málum og leysa úr ágreiningsefnum. Á ýmsum öðrum sviðum, líkt og í málefnum norðurslóða, er samstarf hins vegar má ágætum og mikilvægt að hlúa áfram að því,“ er haft eftir Guðlaugi Þór í fréttatilkynningu.

Þeir Guðni og Guðlaugur Þór munu svo funda með Vladimir Pútín Rússlandsforseta síðar í dag þar sem tvíhliða samskipti ríkjanna og ýmis utanríkismál verða á dagskrá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert