Tíu þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að mennta- og menningarmálaráðherra verði falið að skipa starfshóp sem geri tillögu að aðgerðum gegn kennaraskorti í framtíðinni. Fyrsti flutningsmaður er Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
„Við stöndum frammi fyrir stærri samfélagsbreytingum á næstu áratugum en við höfum þurft að takast á við mjög lengi, sannkallaða þjóðfélagsbyltingu. Atvinnulíf tekur stakkaskiptum og tæknibyltingin, með gervigreind, vélvæðingu og tölvuvæðingu, mun leiða til mikillar fækkunar á þeim störfum sem eru unnin nú,“ segir í greinargerð með tillögunni og áfram að allar rannsóknir sýni að þau störf sem áfram verði unnin af fólki krefjist sérhæfingar og menntunar.
„Þar mun gott skólakerfi með góðum kennurum leika lykilhlutverk. Aðgerðir til að koma í veg fyrir kennaraskort eru ein stærsta áskorun íslenskra stjórnmála og þurfa að fá meiri athygli Alþingis og stærri sess í þjóðmálaumræðunni. Starfshópur sem gerir tillögu að aðgerðum til að koma í veg fyrir kennaraskort í framtíðinni væri mikilvægt skref í þá átt.“