Mistök í mælingum í Helguvík

Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík.
Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Orkurannsóknir ehf. sem annast umhverfisvöktun við verksmiðju United Silicon í Helguvík segja að fyrri mælingar sem gefnar hafa verið út um innihald þungmálma og PAH efna í ryksýnum í nágrenni við verksmiðjuna sé úr öllu samhengi við raunverulega losun frá fyrirtækinu. Ljóst sé að um mistök í mælingum hafi verið að ræða, að því er segir í fréttatilkynningu sem United Silicon hefur sent frá sér.

Þar er vísað í yfirlýsingu Orkurannsókna til Umhverfisstofnunar en þar segir að endurskoða þurfi allar niðurstöður rykmælinga frá árinu 2016 sem gerðar voru í mælistöðinni við Hólmbergsbraut í Helguvík.

„Í yfirlýsingunni kemur fram að niðurstöður mælinga á ryksýnum sem tekin voru í mælistöðinni við Hólmbergsbraut hafi verið bornar saman við efnagreiningar á ryki frá útblæstri kísilverksmiðju United Silicon og þær sýni allt að 67 sinnum meira magn þessara efna í ryksýnunum en það sem mælist í ryki frá útblæstri verksmiðjunnar. Þar á meðal sé gildi arsens 27 sinnum meira í ryksýnunum en hafi mælst í útblæstri verksmiðjunnar.

Vísað er til þess að fyrri greiningar hafi sýnt að magn þungmálma hafi aukist mjög verulega frá sýnum sem tekin voru á fyrra tímabili mælinga frá mars-september 2016 og þar til í október-desember 2016. Hins vegar hafi starfsemi verksmiðju United Silicon ekki byrjað fyrr en um miðjan nóvember. Því sé ekki hægt að tengja aukningu í byrjun seinna tímabils til starfsemi kísilversins. Ef skoðaðar séu vindrósir frá þessum tíma sjáist að sunnanáttir hafi verið ríkjandi á þessum tíma en mælistöðin er sunnan við verksmiðjuna.

Í bréfi Orkurannsókna kemur fram að nú sé verið að kanna hvernig þessi mistök hafi átt sér stað en vitað sé að kerfisskekkja geti orðið við mælingar þannig að 3-4 föld hækkun verði á öllum mælingum. Þá sé verið að rýna í mælingarferlið í samráði við rannsóknarstofu ALS í Svíþjóð sem annast efnagreiningar. Einnig eru Orkurannsóknir að fara yfir eigin verkferla til að kanna hvort hluta skekkjunnar megi rekja til vinnuferla hjá þeim,“ segir í tilkynningu frá United Silicon.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert