Samtök ferðaþjónustunnar hafa boðað til félagsfundar með skömmum fyrirvara vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að færa ferðaþjónustuna úr lægra virðisaukaskattþrepi upp í hærra. Upplýsingafulltrúi SAF segir að mikill hiti sé í ferðaþjónustuaðilum og segir tíðindin fela í sér „kaldar kveðjur“ til ferðaþjónustunnar sem hafi haft gríðarlega jákvæð áhrif fyrir íslenskan efnahag og atvinnulíf.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, greindi frá því á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í gær að fækka ætti undanþágum í virðisaukaskattkerfinu og færa ferðaþjónustuna upp um þrep, sem á sama tíma yrði lækkað. Strax í kjölfarið hófust umræður meðal ferðaþjónustuaðila, m.a. í umræðuhóp þeirra á Facebook þar sem þeir lýstu yfir þungum áhyggjum af skattahækkuninni.
„Við erum að boða til fundar með skömmum fyrirvara,“ segir Skapti og kallar félagsfundinn eins konar neyðarfund, en fundurinn hefst klukkan 17 á Hótel Sögu. „Við höfum töluverðar áhyggjur af þessum áformum ríkisstjórnarinnar, að færa greinina í þetta nýja og hærra skattþrep. Þetta mun hafa alvarleg áhrif fyrir samkeppnisstöðu Íslands sem áfangastað fyrir ferðamenn.“