Reykjavík verði að „gyrða sig í brók“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meðal þess sem sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra gerði að umtalsefni sínu í ræðu sem hann flutti á ársfundi Seðlabanka Íslands í dag var staðan á húsnæðismarkaðinum. Sagði hann ástæði til þess að hafa áhyggju af stöðunni þar en ljóst væri að áhrif ferðaþjónustunnar á markaðinn væri mikil. Beindi hann spjótum sínum þó sérstaklega að Reykjavíkurborg og sagði að þar þyrftu menn að gyrða sig í brók.

„Þörf fyrir nýtt húsnæði er mikil, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Það er jákvætt að byrjað er að byggja nýtt húsnæði víða á landsbyggðinni eftir áratugahlé en vandinn felst í lágu húsnæðisverði í samanburði við byggingarkostnað. Á höfuðborgarsvæðinu hefur lóðaframboð engan veginn fullnægt eftirspurn. Stjórnvöld hafa takmarkað vald á framboðshliðinni en hafa þó lagt sitt á vogarskálarnir, t.d. með einföldun á byggingarreglugerð til að gera kleift að byggja ódýrari og hagkvæmari íbúðir og með því að setja lög og fjármagn í stofnstyrki félagslegs húsnæðis,“ sagði ráðherrann.

Hvað eftirspurnarhliðina varðaði hefðu stjórnvöld hækkað húsnæðisbætur og lagt grunninn að tíu ára skattahagræði fyrir ungt fólk sem vildi nýta séreignarsparnað til þess að draga úr húsnæðiskostnaði en eftir stæði að mikið vantaði upp á framboðshliðina.

„Hér verður sérstaklega Reykjavíkurborg að gyrða sig í brók en furðulegt er að sjá að á síðustu fimm árum hefur íbúum Kópavogs fjölgað meira en í Reykjavík þó höfuðborgin sé þrisvar sinnum fjölmennari. Í húsnæðismálum þarf Reykjavík einfaldlega að gera miklu betur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert