Ævintýrakapparnir Sigurður Ragnarsson og Tómas Eldjárn Vilhjálmsson lögðu nýverið af stað í gönguskíðaferð yfir Sprengisand. „Það gengur bara vel hjá þeim,“ segir Ilmur, kærasta Tómasar, í samtali við mbl.is, en sjálfir eru þeir í stopulu símasambandi. Félagarnir hófu för sína hinn 28. mars og stefna að því að vera komnir aftur til byggða 6. apríl.
Ilmur kveðst ekki hafa nokkrar áhyggjur af þeim félögum enda séu þeir vel út búnir, þaulvanir útivist og fjallamennsku og láti reglulega vita af sér. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kapparnir takast á við nýtt ævintýri en þeir tóku til að mynda þátt í keppninni Mongol Rally fyrir tveimur árum þar sem þeir, ástamt fleiri félögum sínum, ferðuðust af eigin rammleik frá Bretlandi til Mongólíu.
Lagt var af stað í leiðangurinn frá Eyjafirði og í Laugafell, þaðan í Nýjadal og þaðan farið niður í Jökulheima. Frá Jökulheimum hyggjast þeir ganga niður í Landmannalaugar og þaðan í Hrauneyjar. Þangað verða þeir sóttir og ekið í bæinn.
Tómas og Sigurður flugu sem fyrr segir norður á Akureyri 28. mars og lögðu af stað rétt fyrir hádegi þann dag. Þeim var skutlað inn Eyjafjörðinn eins langt og unnt var en drógu þá fram skíðin og héldu af stað. Flestar nætur munu þeir Tómas og Sigurður hafst við í tjaldi en þeir hafa þó tvær nætur til þessa dvalið í skála yfir nótt, öðrum í Laugafelli og hinum í Nýjadal.
Reglulega eru færðar fréttir af gangi ferðarinnar á Facebook-síðu þeirra Sigga og Tomma en í dag tóku þeir til að mynda matarpásu norðvestan við Krosshnjúka þar sem meðfylgjandi mynd var tekin. Í gær gengu þeir hvorki meira né minna en 41 kílómetra frá Laugafelli í Nýjadal og hefur veðrið verið upp og ofan á leiðinni.