Vill Pútín og Trump til Akureyrar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég veit að Pútín og Trump njóta ekki fullkomlega almennrar hylli en þeir eru þrátt fyrir allt leiðtogar Bandaríkjanna og Rússlands. Færi ekki vel á því að þeir ræddu málin í góðu andrúmslofti í samvinnu- og norðurslóðabænum, Akureyri?“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, á Facebook-síðu sinni í kjölfar frétta af því að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, vilji hitta Donald Trump Bandaríkjaforseta í Helsinki, höfuðborg Finnlands, í maí. Íslendingar ættu, segir Sigmundur, að bjóða fram Akureyri sem fundarstað.

„Reykjavík var með Höfðafundinn og óþarfi að trufla sögu þess merka kaldastríðsviðburðar. Akureyri gæti orðið vettvangur tilraunar til að bæta úr stöðu mála í Úkraínu og Mið-Austurlöndum,“ segir Sigmundur og vísar þar til fundar þáverandi leiðtoga Bandaríkjanna og Sovétríkjanna í Höfða í Reykjavík árið 1986.

„Það er hægt að fljúga beint á Akureyri frá Moskvu og Washington. Fyrst forsetarnir og svo ferðamennirnir sem fylgja í kjölfarið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert