VSK hækkaður á ferðaþjónustu en lækkaður almennt

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra. mbl.is/Golli

Samkvæmt fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð er fram á Alþingi í dag og var kynnt á fundi með fjölmiðlamönnum í morgun, verður flest tegund ferðaþjónustu felld undir almennt þrep virðisaukaskattskerfisins og ívilnanir í þeim flokki afnumdar.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að skattkerfið verði einfaldað og greiða eigi skuldir hratt niður með það að augum að skapa hagfelld skilyrði fyrir vaxtalækkun.

Með því að hækka flestar tegundir ferðaþjónustu í efra þrep virðisaukaskattskerfisins þann 1. júlí 2018 verður til svigrúm til að lækka þetta almenna þrep úr 24% niður í 22,5% 1. janúar 2019. Áætlað er að vísitala neysluverðs lækki um 0,4% vegna þessa. Samtímis verður litið til þess að lækka tryggingagjald eftir því sem svigrúm verður til, að því er segir í tilkynningunni.

Veitingaþjónusta verður áfram í lægra þrepi virðisaukaskattskerfisins til samræmis við önnur matvæli.

Kolefnisgjald verður tvöfaldað samkvæmt fjármálaáætluninni. Þá verður vörugjald sett á bílaleigubíla og lækkun á bankaskatti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert