Óbreytt ástand „óforsvaranlegt“

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. /RAX

„Fjármálaráðherra Íslands hefur viðurkennt að það sé óforsvaranlegt fyrir landið að viðhalda sínum eigin fljótandi gjaldmiðli, aðeins fáeinum dögum eftir að gjaldeyrishöftum var aflétt.“ Svo segir í frétt Financial Times sem birt var í dag en þar er rætt við Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kveðst gáttaður á þessum orðum ráðherra.

Segir Benedikt í viðtalinu að Ísland muni skoða þann möguleika að festa íslensku krónuna við annan gjaldmiðil, þá líkast til evru eða pund. 

„Er óbreytt ástand óforsvaranlegt? Já. Allir eru sammála um það. Við myndum vilja hafa stefnu sem kemur jafnvægi á gjaldmiðilinn. Það er alls ekki mjög gott þegar gjaldmiðill flöktir um 10% á þeim tveimur mánuðum síðan við tókum við,“ er haft eftir Benedikt í viðtalinu.

Kanadadollar og norska krónan „afleitar hugmyndir“

Í fréttinni er rakið í stuttu máli það sem gerðist í fjármálakreppunni árið 2008 og hvernig mikill uppgangur í ferðaþjónustuiðnaðinum hér á landi hefur haft jákvæð áhrif á hagkerfið sem hafi jafnaði sig tiltölulega hratt. Nú sé aftur á móti óttast um hraða styrkingar krónunnar.

Segir Benedikt við Financial Times að það að ná gjaldmiðlinum í jafnvægi sé „næsta stóra verkefni,“ Íslendinga. Þá vísar hann því á bug að hugsanlega komi til greina að festa gengi krónunnar við Kanadadollar eða norsku krónuna. Það séu „afleitar hugmyndir,“ að mati Benedikts.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, kveðst gáttaður á þessum yfirlýsingum fjármálaráðherra. „Stöðugleikanum virðist eiga að ná með því að tengja krónuna við annan gjaldmiðil en þó segir ráðherrann fráleitt að tengja krónuna við Kanadadollar eða norska krónu,“ skrifar Sigmundur Davíð á Facebook í dag og vísar þar í frétt Financial Times.

„Aðalatriðið er að ef þú vilt festa við annan gjaldmiðil, þá festir þú við gjaldmiðil á svæði þar sem þú stundar viðskipti. Þegar þú tekur ákvörðun um gjaldmiðil mun það einnig breyta framtíðinni. Þú munt eiga í meiri viðskiptum við það svæði,“ segir Benedikt. Bendir hann í því samhengi á að Danir hafi af þessu reynslu en þeir hafi stundað meiri viðskipti við Þýskaland eftir að hafa fest gjaldmiðil sinn, fyrst við þýska markið og síðan við evruna.

Þá slær Benedikt þær áhyggjur sem uppi hafa verið um ofhitnun og þenslu í kerfinu og kveðst ekki halda að ferðaþjónustan sé „bóla sem muni springa“.

Þá minnist hann á þá áherslu ríkisstjórnarinnar um mikilvægi þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs til að „stemma stigu við mögulegri bólu.“ Þá er vikið í fréttinni að nýlegri sölu á hlutum í Arion banka til erlendra aðila og endurvöknum áhuga erlendra fjárfesta fyrir Íslandi í ljósi betra efnahagsástands.

Segir Benedikt að ákveðinnar tortryggni gæti meðal almennings á Íslandi vegna sölunnar og hvað varðar aðkomu erlendra vogunarsjóða. Segir hann að jafnvægi þurfi að ríkja á milli áhugans fyrir því að laða að erlenda fjárfesta og nauðsynlegs gagnsæis hvað erlenda aðila varðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka